Ungmenni bæjarins velta fyrir sér hvort tekjutengja eigi frístundastyrk Reglulega skoðað hvað megi gera betur

Ellert Örn Erlingsson forstöðumaður íþróttamála á Akureyri
Ellert Örn Erlingsson forstöðumaður íþróttamála á Akureyri

„Það er í reglulegri skoðun hjá Akureyrarbæ hvernig hægt er að auka nýtingu frístundastyrksins,“ segir Ellert Örn Erlingsson forstöðumaður íþróttamála á Akureyri. Ríflega 18% barna og ungmenna nýttu sér ekki frístundastyrki á liðnu ári, en hann nemur 40 þúsund krónum á ári til hvers barns/ungmennis frá 6 til 17 ára og gengur upp í kostnað við íþróttir eða tómstundir sem þau stunda. Heldur fleiri drengir en stúlkur nýta ekki frístundastyrkinni, þeir voru 58% og stúlkur 42%.

Ungmenni hafa kallað eftir betri kynningu á styrknum og kom málið til umræða á bæjarstjórnarfundi unga fólksins nýverið. Þar kom fram að dýrt sé að stunda íþróttir og á sumum heimilum komi sá kostnaður í veg fyrir að krakkar stundi íþróttir. Ungmennaráð spurðist fyrir um hvort til greina kæmi hjá bæjarstjórn að hafa styrkinn tekjutengdan. Vel kemur til greina að ráðast í kynningarátak vegna frístundastyrksins að því er fram kom á fundinum en engin ákvörðun hefði verið tekin um tekjutengingu.

Alltaf svigrúm fyrir bætingar

Ellert Örn segir að í þeirri vinnu bæjarins að auka nýtingu á frístundastyrknum  sé hann bundin við að fara í almennar og miðlægar aðgerðir til að athuga og greina atriði sem vert sé að skoða nánar. Framboð til að nýta frístundastyrk er fjölbreytt og þá er hann vel sýnilegur í skráningarferli þegar forráðamenn skrá og greiða fyrir börn í íþróttir og tómstundir. „Í leit að svörum við nýtingunni hefur því verið fleygt fram að sumir hreinlega gleymi að nota styrkinn þegar gengið er frá skráningu og greiðslu, aðrir þekki ekki til styrksins og enn aðrir geta ekki nýtt sér styrkinn þar sem hann er bara hluti af þeim kostnaði sem fylgir þátttöku barnsins í íþróttum og tómstundum,“ segir hann.

Reglulega sé skoðað hvar og hvernig megi gera betur í markaðssetningu og nýtingu frístundastyrksins, „því það er alltaf svigrúm fyrir bætingar þar sem langtímamarkmiðið væri að öll börn væru virk í einhverjum íþróttum og/eða tómstundum og um leið 100% nýting á frístundastyrk Akureyrarbæjar. Það væri geggjað,“ segir Ellert Örn.  

 Tæpur þriðjungur nemenda í Oddeyrarskóla nýtir ekki frístundastyrk

Í samantekt um frístundastyrk Akureyrarbæjar er varpað upp í töflu nýtingu styrksins innan skólahverfa þ.e. hlutfall barna á aldrinum 6 til 17 ára innan hvers skólahverfis sem nýtti sér styrkinn. Hæst er hlutfallið í Lundarskóla, 83%, þá í Gilja- og Glerárskóla 82,6% í hvorum skóla. Nemendur Brekkuskóla sem nýttu styrkinn voru 79,7% og hlutfallið var 78% í Síðuskóla og  77,5% í Naustaskóla. Grímsey/Hrísey kom þar á eftir með 77,4% nýtingu. Fæstir eru nemendurnir í Oddeyrarskóla þar sem 71% nemenda nýtti sér frístundastyrkinn.

Nýjast