Um tuttugu þúsund heimsóttu Sjóböðin í júlí

Ármann Örn Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Sjóbaðanna á Húsavík segir aðsókn hafa verið góða í sumar.…
Ármann Örn Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Sjóbaðanna á Húsavík segir aðsókn hafa verið góða í sumar. Mynd/epe
  • Stjórn Sjóbaðanna á Húsavíkurhöfða fundaði í gær þar sem meðal annars var farið vel yfir aðsókn sumarsins.

Ármann Örn Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Sjóbaðanna segir í samtali við Vikublaðið að aðsókn í júlí hafi verið með besta móti. „Gestafjöldi í júlí var eiginlega nákvæmlega eins og hann var í fyrra enda getum við ekki tekið fleiri, við erum að toppa okkur í júlí,“ segir hann.

 Aukning í maí og júní

Þá segir Ármann að maí og júní séu að koma töluvert betur út en á síðasta ári. „Sérstaklega maí en þar auðvitað spilar inn í að aðstæður vegna Covid voru lakari á sama tíma í fyrra. Þá vorum við að lenda í lokunum inn á milli. Faraldurinn hafði minni áhrif í ár en þó vissulega eitthvað. Ég myndi halda að það sé einhver aukning á stökum dögum en aukningin skýrist að miklu leyti á því að við misstum daga út í fyrra vegna lokana,“ segir hann. 

Afsláttarleiðir í fyrra

Þá beri einnig að taka tillit til þess að í fyrra hafi verið farið í afsláttarleiðir til að mæta ástandinu í samfélaginu. Boðið var upp á tveir fyrir einn tilboð til KEA-korthafa og frítt fyrir börn 12 ára og yngri. Sama leið hafi ekki verið farin í ár. „Við erum samt að fá inn sama fjölda í júlí og fleiri í maí og júní,“ segir Ármann og ber sig vel eftir vertíðina. „Við kvörtum ekki, júlí er bara eins stór og hann getur orðið en það eru svona 20 þúsund manns.“

 Árskortahafar taka frí í júlí

Þá segir Ármann að um 90-95% gesta í júlí greiði á staðnum eða í gegnum heimasíðu fyrirfram og þá fækki komum árskortahafa. „Í maí og júní er talsvert af árskortahöfum, þannig að traffíkin er alltaf töluverð þessa mánuði. Þeim snarfækkar hins vegar í júlí þegar mest er að gera. Þá er mest um gesti sem greiða á staðnum eða í gegnum heimasíðu, eða um 90-95% gesta.“

 Spenntur fyrir haustinu

Aðspurður hvort umferð um böðin hafi farið minnkandi eftir Verslunarmannahelgi segir Ármann að það sér ekki verulegt. „Það hefur aðeins minnkað en ekkert farið að róast mikið. Það er alveg töluverður reitingur af ferðamönnum í bænum enn þá. Ég myndi segja að við séum komin í aðeins eðlilegri traffík núna eftir mjög góðan júlímánuð. Það eykur bara á stemmninguna og upplifun gesta,“ segir hann og kveðst vera ánægður með sumarið.

„Ég er mjög ánægður með aðsóknina í sumar og spenntur fyrir aðsókninni í haust.“

Fréttin hefur verið uppfærð. Í upphaflegur fréttinni var greint frá að 15 þúsund gestir hafi heimsótt Sjóböðin í júlí. Hið rétta er að um 20 þúsund gestir hafa heimsótt Sjóböðin í júlí. Það hefur nú verið leiðrétt.

Nýjast