13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Um 65 milljónir í hafnargjöld
Samherji og Útgerðarfélag Akureyringa greiddu samtals um 65 milljónir króna í hafnargjöld til Hafnasamlags Norðurlands á liðnu ári. Togarar félaganna landa að mestu á Akureyri og Dalvík þar sem fiskvinnsluhús þeirra eru.
Pétur Ólafsson hafnarstjóri hjá Hafnasamlagi Norðurlands segir á vefsíðu Samherja að bæði félögin séu mikilvægir viðskiptavinir samlagsins. „Sem betur fer erum við ekki með öll eggin í sömu körfunni. Skemmtiferðaskipin hafa skipt okkur miklu máli en tekjur vegna þeirra brustu algjörlega í fyrra vegna heimsfaraldursins. Góðu heilli tókst Samherja og ÚA að gera út flotann í faraldrinum og gátu séð fiskvinnsluhúsum fyrir hráefni. Ef það hefði ekki gengið upp, hefðu tekjur okkar dregist enn frekar saman með tilheyrandi afleiðingum.“
Heildartekjur samlagsins á liðnu ári námu 388 milljónum króna.
/MÞÞ