U2 heiðurstónleikar á Græna hattinum

Lög með U2 munu óma á Græna hattinum um helgina.
Lög með U2 munu óma á Græna hattinum um helgina.

Meistari Jakob er frumraun Jakobs Birgissonar í uppistandi og stígur hann á svið á Græna hattinum annað kvöld, fimmtudaginn 14. febrúar. Upprunalega stóð til að halda einungis eina sýningu en nú hafa sex verið haldnar. Sýningin hefur hlotið frábærar viðtökur og hefur Jakob stimplað sig rækilega inn í íslensku uppistandssenuna.

Jakob stendur á krossgötum í lífinu. Hann er tvítugur, nýbyrjaður í háskóla og foreldrar hans fluttir vestur yfir haf. Í þessari sýningu reifar hann helstu hversdagsáhyggjur sínar og leggst jafnvel svo lágt að blanda sér í almennt dægurþras Íslendinga, svo sem um strákana okkar, bankamenn og stjórnmálin. En undir einföldu og gleðilegu yfirborði krauma áleitnar spurningar. Æskuminningar sækja á og þær reynist sífellt erfiðara að bæla niður. Uppistandið hefst kl. 21.00.

Á föstudagskvöldið 15. febrúar verður tónlist stórsveitarinnar U2 leikin af velvöldum tónlistarmönnum. U2 er fyrir löngu orðin að einni stærstu, vinsælustu og áhrifamestu hljómsveitum allra tíma. „Músíkin, bræðralagið og fagmennskan sem einkennir fjórmenningana er eitthvað sem aðrir tónlistarmenn stefna að allan ferilinn og er það ekki skrítið að nokkrir þeirra safnist saman og telji í nokkur af hinum ótalmörgu slögurum sem U2 hafa gefið heiminum,“ segir í tilkynningu en hljómsveitina skipa Magni Ásgeirsson – Hewson, Biggi Nielsen – Mullen, Gunnar Þór - The Edge og Friðrik Sturluson–Clayton Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.

Á laugardagskvöldinu 16. febrúar er komið að CCR Bandinu. Strákarnir í CCR Bandinu hafa það að aðalsmerki að heiðra sveitina Creedence Clearwater Revival. Á efnisskránni eru allra strærstu lög þeirra John Fogerty og félaga, lög eins og Have you ever seen the rain, Bad moon rising, Fortunate son, Proud mary og fl. CCR Bandið er skipað þeim Bigga Haralds söngur og gítar, Sigurgeiri Sigmunds gítar, pedal-steel gítar, lap-steel gítar, Bigga Nielsen trommur og Inga B. Óskars bassa. Tónleikarnir hefjast kl. 22:00.

 

Nýjast