13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Tvískiptur göngu- og hjólastígur meðfram Leiruvegi í burðarliðnum
mth@vikubladid.is
Akureyrarbær er í samvinnu við Vegagerðina að undirbúa lagningu nýs göngu- og hjólastígs meðfram norðanverðum Leiruvegi, frá Drottningarbraut og austur að Leirubrú. Stefnt er að því að hafa stíginn tvískiptan, þannig að hjólandi og gangandi verða á sitt hvorum stígnum.
Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs segir að við stíginn verði settir upp áningar- og útsýnisstaðir þar sem hægt verði að staldra við og njóta lífsins á góðviðrisdögum.
Meðfram Leirubrú norðanmegin er 1,5 metra breiða stétt sem erfitt er að breikka og er því verið að skoða hvaða kostir eru í stöðunni þar að sögn Andra.
Eyjafjarðarsveit sér um gerð stígs austan við nýju brúna með tengingu við Skógarböðin. Hugmyndir eru um að koma fyrir undirgöngum undir þjóðveginn í námunda við innkeyrslu að Skógarböðunum. Þannig myndast örugg tenging fyrir nýja stíginn sem Svalbarðsstrandarhreppur er að gera norður og upp í gegnum Vaðlareit, austan við Þjóðveg 1.
Uppbyggingu lokið næsta sumar
„Við erum að vonast til þess að uppbygging Leirustígsins Akureyrarmegin verði lokið sumarið 2023 og endanlegum frágangi ári síðar. Nú eru sérfræðingar umhverfis- og mannvirkjaráðs að fara betur yfir kostnaðaráætlanir, ekki hvað síst hvað varðar færslu og endurbætur á grjótvörn sem verður nokkuð dýr framkvæmd,“ segir Andri.
Stígurinn verður hluti af stofnstígakerfi Akureyrar og mun með tímanum ná norður að sveitarfélagamörkum við Hörgársveit og einnig suður að mörkum við Eyjafjarðarsveit.