Tvíburabræðurnir Ómar og Ingvar stofnuðu eigið fyrirtæki
Starfssvið fyrirtækisins er alhliða ráðgjafastarfsemi í landslagsarkitektúr og skipulagi og m.a. sjá þeir um hönnun fyrirtækjalóða, stofnanalóða og almenningsgarða og deiliskipulag íbúðarsvæða, sumarbústaðasvæða og útivistarsvæða svo eitthvað sé nefnt. Bræðurnir hafa verið við vinnu og nám erlendis og í Reykjavík síðasta áratug en ákváðu fyrir skömmu að flytja aftur heim og fara að vinna sjálfstætt. Ómar er skipulagsfræðingur en Ingvar landslagsarkitekt og hafa þeir bræður öðlast mikla og góða þekkingu á sínum sviðum. Þeir reikna með að vera mest með starfssemina á Norðurlandi en allir landshlutar eru þó vel inn í myndinni vegna tækninnar í dag.
Ómari líst vel á reksturinn og er fullur bjartsýni. "Það er spennandi að vera sinn eigin herra og gera þetta sjálfur og með sínar skoðanir á þessu," segir Ómar. Fyrirtækið er rúmlega tveggja mánaða gamalt en þeir fóru af stað 2. maí sl. Ómar segir að byrjunin lofi góðu og þeim hafi verið vel tekið. "Það er nóg að gera hjá okkur, við höfum fengið mikið af verkefnum hingað til þrátt fyrir að við höfum ekkert verið að auglýsa okkur af ráði og þetta hefur bara komið upp í hendurnar á okkur þannig að við erum fullir bjartsýni," sagði Ómar að lokum. Bræðurnir eru staðsettir í Hafnarstræti 82 á Akureyri og hafa þeir opnað heimasíðuna, http://www.x2.is/ þar sem hægt er nálgast um upplýsingar um þá og fyrirtækið.