Tveir fluttir með sjúkraflugi eftir sprengingu á Grenivík
Tveir starfsmenn verksmiðjunnar Pharmarctica á Grenivík slösuðust alvarlega þegar sprenging varð í húsinu laust eftir kl 15 í dag.
Eldur kviknaði og varð húsið alelda.
Slökkvilið Grýtubakkahrepps fór á staðinn og slökkviliðið á Akureyri sendi einnig bíla og mannskap. Þá fóru sjúkrabílar og lögreglubílar frá Akureyri. Hópslysaáætlun Almannavarna var virkjuð og aðgerðarstjórn á Akureyri mönnuð.
Kl. 15:39 var búið að slökkva eldinn í húsinu. Tveir starfsmenn voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri með brunasár. Þeir voru síðan fluttir með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem þeir fá aðhlynningu á Landspítalanum. Fimm aðrir starfsmenn voru í húsinu þegar þetta gerðist og er unnið að því að þeir fái áfallahjálp.
„Í húsinu fer fram framleiðsla á snyrtivörum, fæðubótarefnum o.fl. Rannsóknarlögreglumenn fóru á vettvang og gerðu frumrannsókn en frekari rannsókn bíður morguns. Rannsókn á orsökum sprengingarinnar er því á frumstigi og því ekki hægt að fjölyrða um þær á þessu stigi,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.