Tími til að gleðjast með fjölskyldunni

Nær öruggt má teljast að jólasveinunum bregði fyrir um helgina. Mynd/Hjálmar Bogi.
Nær öruggt má teljast að jólasveinunum bregði fyrir um helgina. Mynd/Hjálmar Bogi.

Aðventuhátíðin Jólabærinn minn verður haldin á Húsavík um helgina frá föstudegi til sunnudags með fjölbreyttum viðburðum um allan bæ.

Sú skemmtilega hefð hefur skapast á Húsavík undanfarin ár að fyrstu helgina í aðventu er blásið til hátíðarhalda undir nafninu Jólabærinn minn en það er Húsavíkurstofa sem hefur veg og vanda af skipulagningunni. Hátíðin hefur tekist afar vel síðustu ár og skapað töfrandi jólastemningu í bænum. Í ár verður ekkert slegið af þegar kemur að dagskrá og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

„Við ætlum að bjóða upp á skemmtilega og kósý stemningu fyrir heimamenn og gesti með mörkuðum, lifandi tónlist og fjölbreyttum viðburðum. Ekta hugguleg smábæjar hátíð,“ segir Sólveig Ása Arnarsdóttir, starfsmaður Húsavíkurstofu í samtali við Vikublaðið.

Útimarkaðurinn á sínum stað

Sólveig segir að jólamarkaðurinn vinsæli muni halda sér líkt og undanfarin ár og muni setja skemmtilegan svip á bæjarlífið í hjarta Húsavíkur fyrir framan Bjarnahús. Þar verði hægt að gæða sér á Jólasúpu og glögg frá Naustinu til styrktar Velferðarsjóði Þingeyinga, einnig verði í boði kökur, kaffi, kakó og ýmiskonar varningur. Kveikt verður upp í eldstæði, búin til notaleg stemning og verslanir bæjarins verða með langopnanir.

Dagskráin hefst í Safnahúsinu á föstudag með jólamarkaði klukkan 14 og þar verður stíf dagskrá alla helgina. Sú staðreynd að Íslendingar kjósi sér fulltrúa til Alþingis á laugardag ætti ekki að hafa nein áhrif á stemninguna. „Við vorum búin að ákveða þessar dagsetningar áður en boðað var til kosninga. Við vorum svo aðeins að velta því fyrir okkur hvort það myndi vinna með okkur eða gegn en ég er alveg viss um að þetta þýði bara að fólk verður í stuði og enn þá fleiri á ferðinni,“ segir Sólveig og vill koma á framfæri að hin árlega piparkökuhúsa-keppni fari fram um helgina og tekið verði við piparkökuhúsum fram á föstudag.

 Keppni í piparkökuhúsum

„Við viljum endilega fá sem flest framlög í piparkökuhúsa-keppninni. Það þarf að skila inn framlögum á milli 14 og 18 á föstudag. Það er til mikils að vinna en vinningar eru frá Geosea, Icewear og Pennanum. En aðalvinningurinn er náttúrlega ánægjan við að búa til piparkökuhús með fjölskyldunni, samveran er svo mikilvæg,“ útskýrir Sólveig.

„Dóttir mín tók þátt í fyrra með systur minni og syni hennar og  fengu fyrstu verðlaun en þau ætla ekki að taka þátt í ár, þannig að það er séns fyrir aðra,“ segir Sólveig og hlær.

Lifandi stemning í Safnahúsinu

Menningunni verður gert hátt undir höfði um helgina að sögn Sólveigar og það verður mikið um að vera í Safnahúsinu. „Það verður náttúrlega bara ótrúlega margt um að vera á Safnahúsinu um helgina. Við erum að reyna virkja það af því þetta er svo  æðislegt hús. Það verður markaður á fyrstu hæðinni og piparkökuhúsin. Svo verður opnun á sýningunni hans Silla á föstudagskvöldið. Svo verður boðið upp á alls konar föndur á bókasafninu þannig að það verður margt um að vera í Menningarmiðstöð Þingeyinga,“ segir Sólveig að lokum.

Uppfært:

Dagskrá hefur verið aðlöguð að veðurspá

Nýjast