Traust afkoma Samherja hf. á árinu 2022

Fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík. Björgúlfur EA 312 er í höfn /myndir samherji.is
Fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík. Björgúlfur EA 312 er í höfn /myndir samherji.is

Rekstrarhagnaður Samherja hf. nam 9,9 milljörðum króna á árinu 2022 og jókst um rúmlega 800 milljónir króna milli ára. Hagnaður af rekstri samstæðu Samherja hf., þegar tekið hefur verið tillit til afkomu hlutdeildarfélaga og fjármagnsliða, nam 14,3 milljörðum króna eftir skatta en var 17,8 milljarðar króna á árinu 2021.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í ársreikningi Samherja hf. fyrir árið 2022 sem samþykktur var á aðalfundi félagsins hinn 24. ágúst síðastliðinn.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., gerði grein fyrir uppgjörinu á aðalfundinum og nefndi í ræðu sinni að í heild hefði  afkoman verið góð á árinu 2022. Sumt hafi gengið betur en árið á undan en annað ekki. Uppgjörið litaðist að hluta til af þeim breytingum sem hefðu orðið á efnahagsreikningi Samherja hf. á árinu en þær veigamestu fólust í því að ýmsar eignir voru færðar til félagsins Kaldbaks ehf.

 Lykiltölur úr uppgjörinu

Á árinu 2022 seldi Samherji afurðir fyrir 54 milljarða króna og voru sölutekjur vegna afurða nær óbreyttar milli ára. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 9,9 milljörðum króna en var 9 milljarðar króna á árinu 2021.

Tekjur af áhrifum hlutdeildarfélaga námu 6,2 milljörðum króna en meðtalin er tekjufærsla að fjárhæð 3 milljarðar króna vegna lækkunar á eignarhluta Samherja í Síldarvinnslunni hf. úr 32,6% í 30,1%. Þá voru tekjufærðir um 1,8 milljarðar vegna sölu á eignarhlut í Samherja Holding ehf.

 Eignir Samherja hf. árslok námu 107,7 milljörðum króna og eigið fé var 79,8 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar í árslok var 74%. Eiginfjárhlutfallið hélst óbreytt milli ára og undirstrikar traustan efnahag félagsins.

 Á árinu 2022 voru að meðaltali 686 ársverk hjá samstæðunni en þau voru 807 árið 2021. Heildarlaunagreiðslur á árinu 2022 námu samtals um 9 milljörðum króna.

Framangreindar upphæðir í rekstrarreikningi eru umreiknaðar úr evrum í íslenskar krónur á meðalgengi ársins 2022 og upphæðir í efnahagsreikningi á lokagengi ársins 2022.

Góður gangur í veiðum, vinnslu og sölu

 Á árinu 2022 gerði samstæðan út fimm ísfisktogara, eitt frystiskip og tvö uppsjávarskip. Þegar veiðiheimildir nýs fiskveiðiárs lágu fyrir í september var ljóst að bregðast þurfti við samdrætti í heimildum, einkum þorski. Því var ákveðið að leggja einu skipi tímabundið.

 Heildarafli ísfisktogaranna dróst saman um tæp 3.200 tonn frá fyrra fiskveiðiári. Þrátt fyrir samdráttinn var unnið alla daga í fiskvinnsluhúsum Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa.  

Frystitogarinn Snæfell EA 310 bættist í flotann um miðjan ágúst 2022. Skipið stundar aðallega veiðar á grálúðu sem er hausuð, sporðskorin og heilfryst um borð.

„Skipin eru öll vel búin og sömu sögu er að segja um vinnsluhúsin. Við erum með góða samsetningu aflaheimilda og nauðsynlegt var að fara af stað með Snæfellið til að nýta sem best veiðiheimildirnar,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri á aðalfundinum.

 Unnið var úr 35 þúsund tonnum af hráefni á árinu í vinnsluhúsunum á Dalvík og Akureyri og var uppistaðan afli frá eigin skipum.

Uppsjávarveiðar gengu ágætlega og reyndist Vilhelm Þorsteinsson EA vel. Loðnuvertíðin var sú fyrsta hjá Vilhelm og hafði mikil áhrif á rekstur Samherja og tengdra fyrirtækja.

Sölufélag Samherja, Ice Fresh Seafood, seldi mun minna magn af uppsjávarafurðum en undanfarin ár. Munar þar aðallega um stríðið í Úkraínu sem braust út í febrúar 2022 og stoppaði innflutning þangað en Úkraína hefur um árabil verið mikilvægasti markaður félagsins fyrir uppsjávarafurðir.

Skipting Samherja hf.

Í fjörutíu ára rekstrarsögu Samherja hefur fyrirtækið eignast hluti í ýmsum fyrirtækjum. Hinn 21. desember 2022 samþykkti hluthafafundur Samherja hf. að félaginu yrði skipt upp. Var ráðist í uppskiptinguna í því skyni að skerpa á áherslum í rekstrinum og auka gagnsæi. Fól uppskiptingin í sér að allir eignarhlutir í fyrrgreindum fyrirtækjum, sem að mestu leyti voru í færeyskum og norskum félögum, voru færð til Kaldbaks ehf., sem er sjálfstætt félag og miðaðist skiptingin við 30. júní 2022. Eiríkur S. Jóhannsson er framkvæmdastjóri Kaldbaks ehf.

Uppbygging landeldis

Samherji fiskeldi ehf., dótturfélag Samherja, áformar að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi við Reykjanesvirkjun í þremur áföngum á næstu ellefu árum. Heildarfjárfesting er áætluð yfir 50 milljarðar króna en stjórn Samherja hefur ákveðið að leggja til verulegt fjármagn til fyrsta áfanga verkefnisins. Vegna þessa verður hlutafé félagsins hækkað um allt að 7,5 milljarða króna. Þegar er búið er að leggja inn hlutafjárframlag upp á 3,5 milljarða króna.

Framkvæmdir við stækkun landeldisstöðvarinnar Silfurstjörnunnar í Öxarfirði hófust í byrjun árs 2022 og er áætlað að framkvæmdum ljúki í nóvember á þessu ári. Segja má að stækkun Silfurstjörnunnar sé nokkurs konar undanfari uppbyggingarinnar á Reykjanesi.

„Stór og ánægjulegur áfangi var nýverið er Skipulagsstofnun skilaði áliti við umhverfisskýrslu Samherja fiskeldis ehf. varðandi uppbygginguna á Reykjanesi. Við höfum lagt metnað okkar í allan undirbúning og álit Skipulagsstofnunar staðfestir að vandað hefur verið til verka. Við höfum ríka trú á landeldi en öll uppbygging er gríðarlega fjárfrek. Þess vegna skiptir höfuðmáli að félagið sé fjárhagslega öflugt,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri á aðalfundi Samherja hf.

Baldvin Þorsteinsson nýr formaður stjórnar Samherja hf.

 Á aðalfundinum var ákveðið að greiða út arð til hluthafa sem nemur 3,7% hagnaðar ársins eða jafnvirði 558 milljóna króna. Er þetta í fyrsta sinn í fjögur ár sem greiddur er arður til hluthafa.

Á aðalfundinum var ný stjórn Samherja hf. kjörin. Þær breytingar urðu á stjórninni að þessu sinni að Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja hf., lét af störfum eftir að hafa setið í stjórn fyrirtækisins samfellt frá árinu 2001 og þar af sem stjórnarformaður frá 2005. Baldvin Þorsteinsson tekur sæti Eiríks í stjórninni og er nýr stjórnarformaður Samherja hf. Eiríkur mun hér eftir einbeita sér að verkefnum Kaldbaks ehf. þar sem hann gegnir stöðu framkvæmdastjóra.

„Á þessum rúmlega tuttugu árum sem ég hef verið í stjórn hefur Samherji hf. vaxið og dafnað. Ekki síst vegna þess að fyrirtækið hefur ráðið til sín öflugt starfsfólk í fremstu röð. Þá hafa stjórnendur Samherja hf. borið gæfu til að verja afkomu fyrirtækisins til uppbyggingar þess með fjárfestingum í rekstrinum. Þetta hefur skilað sér í betri og hagkvæmari skipum, innleiðingu tækninýjunga bæði á sjó og í landvinnslu og bættu vinnuumhverfi starfsfólks. Þessi ár hafa verið einstaklega ánægjuleg en í senn lærdómsrík. Ég vil þakka Þorsteini Má, forstjóra, fyrir gott og gefandi samstarf. Þá vil ég þakka starfsfólki, stjórnarmönnum og hluthöfum fyrirtækisins fyrir ánægjulega samvinnu,” segir Eiríkur S. Jóhannsson.

Þorsteinn Már Baldvinsson segir að reynsla og þekking Eiríks hafi verið afar dýrmæt fyrir Samherja hf. „Framlag Eiríks til félagsins hefur verið framúrskarandi gegnum árin. Það var mikið lán að fá hann inn í stjórnina á sínum tíma og geta þannig notið liðsinni hans í mörgum krefjandi verkefnum sem hafa haft mikla þýðingu fyrir félagið á tímabilinu,“ segir Þorsteinn Már.

„Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt og er stoltur að taka við sem formaður stjórnar Samherja hf. Ég byrjaði fyrst að vinna hjá félaginu ungur að árum og hef unnið margvísleg ólík störf hjá því gegnum árin. Ég hlakka til að starfa með föður mínum og öllu því frábæra starfsfólki sem er hjá Samherja hf. að áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins,“ segir Baldvin.

 Auk Baldvins Þorsteinssonar voru kjörin í stjórnina þau Ásta Dís Óladóttir, Dagný Linda Kristjánsdóttir, Kristján Vilhelmsson og Óskar Magnússon, sem er varaformaður stjórnar.

Bjartsýnn á framtíðina

„Heilt yfir var árið 2022 gott hjá Samherja eins og glögglega kemur fram í ársreikningnum. Félagið er með ýmis verkefni í gangi, svo sem uppbyggingu í fiskeldi. Góður árangur í rekstri byggist fyrst og fremst á þekkingu og metnaði starfsfólks og ég vil nota tækifærið og þakka öllu starfsfólki fyrir samstarfið á árinu. Á þessum tímamótum er mér einnig ofarlega í huga að vel búið fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík var opið almenningi á Fiskideginum mikla fyrr í þessum mánuði. Áætlað er að um sjö þúsund manns hafi skoðað húsið, sem undirstrikar áhuga almennings á sjávarútvegi sem atvinnugrein. Ég þakka öllum sem heimsóttu okkur kærlega fyrir komuna,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf.

Frá þessu er greint á heimasíðu Samherja nú i morgun

 Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja afhenti Eiríki S. Jóhannssyni blómvönd á aðalfundinum

 

 Baldvin Þorsteinsson nýr stjórnarformaður Samherja

Nýjast