13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Tinna Jóhannsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Skógarbaðanna
Tinna Jóhannsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Skógarbaða ehf. sem er nýr baðstaður sem opnaður verður í Eyjafirði á næsta ári.
Í tilkynningu segir að Tinna hafi víðtæka reynslu á sviði stjórnunar og markaðsmála. Hún hefur undanfarin fjögur ár starfað sem forstöðumaður markaðsmála hjá Smáralind og Regin þar sem hún hefur haft umsjón með öllu markaðsstarfi auk þess að sinna ýmiskonar viðskiptaþróunarverkefnum. Þá hefur Tinna setið í fjölmörgum stjórnum m.a. hjá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu og Markaðsstofu Kópavogs.
Tinna er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands auk gráðu frá Háskólanum á Bifröst í viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti og Diplóma í mannauðsstjórnun frá EHÍ.
„Einstaklega spennandi“
Þá segist Tinna hlakka mikið til starfans hjá Skógarböðunum. „Ég hlakka mikið til að flytja norður og takast á við þetta spennandi og jafnframt krefjandi verkefni. Á undanförnum árum hef ég viðað að mér fjölbreyttri reynslu m.a. í markaðs- og mannauðsmálum sem ég tel að muni nýtast vel í þessu starfi. Skógarböðin verða einstaklega spennandi áfangastaður sem ég hef óbilandi trú á að verði vel tekið meðal Íslendinga, sem og erlendra ferðamanna,“ segir hún.
Stjórn Skógarbaðanna segir það sérlega ánægjulegt og mikill fengur fyrir Skógarböð að fá Tinnu til liðs við fyrirtækið. „Tinna býr yfir víðtækri reynslu á sviðum sem munu skipta sköpum í okkar rekstri, sérstaklega í markaðsmálum, þjónustustjórnun og gæðamálum. Við hlökkum mikið til samstarfsins.“
Stefnt er að opnun Skógarbaða snemma árs 2022 og segir í tilkynningunni að mikill metnaður hafi verið lagður í alla hönnun og að gestir upplifi útsýnið, kyrrðina og orku skógarins sem best. „Heitt vatn frá Vaðlaheiðargöngum verður nýtt í laugarnar en laugarsvæðið samanstendur af tveimur laugum sem samtals eru um 500 m2 og geta tekið á móti 200 gestum í einu. Einnig er kaldur pottur, þurrsána, tveir barir og huggulegt útisvæði þar sem hægt verður að sitja og njóta útsýnisins.
Þjónustuhúsnæðið er um 800 m2 að stærð en það hýsir meðal annars búningsklefa, afgreiðslu og veitingasal þar sem hægt verður að eiga notalega stund og njóta kyrrðarinnar við arineld.
Framkvæmdir eru nú í fullum gangi og geta þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með, litið við á Facebook síðu Skógarbaðanna ásamt því að á allra næstu dögum opnar heimasíða þar sem hægt verður meðal annars að versla gjafabréf í böðin.“