13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Tímahylkið í tíð kórónuveirunnar
Sýningin Tímahylkið í tíð kórónuveirunnar hefur verið opnuð í Safnasafninu á Svalbarðsströnd. Sýningin er uppskera samstarfs Svalbarðsstrandarhrepps, Safnasafnsins, leikskólans Álfaborgar, Valsárskóla og íbúa sveitarfélagsins.
Á sýningunni eru verk nemenda sem unnin eru út frá upplifun þeirra á áhrifum COVID-19 á daglegt líf okkar. Afrakstri verkefnisins, ljósmyndum og teikningum, þrívíðum hlutum, textum og persónulegum munum verður pakkað í sérsmíðað Tímahylki. Hylkið verður innsiglað og geymt á Minjasafninu á Akureyri til ársins 2071.
Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi segir að nemendur og íbúar hafi frá upphafi COVID-19 safnað minningarbrotum, frásögnum og myndum úr daglegu lífi með það að markmiði að festa á blað söguna á tímum þar sem við skrifum ekki dagbækur lengur. „Við skrifum á facebook, framköllum ekki myndir og geymum flest sem okkur fylgir á tölvum eða í símum og ekki á pappír þannig að verkefni sagnfræðinga framtíðarinnar verða ærin við að ná í þessar upplýsingar,“ segir Björg.
Ráðstefna um áhrif heimsfaraldurs á daglegt líf
Næstkomandi laugardag, 2. október klukkan 14 verður málþing í Safnasafninu þar sem áhugaverð erindi verða flutt um áhrif heimsfaraldurs á daglegt líf okkar og samfélag í nútíð og framtíð. „Miklar breytingar eru að verða á samfélagi okkar sem við verðum vör við í daglegu lífi og áhugavert verður að opna hylkið fína, skoða það sem sett var í Tímahylkið og geymt til framtíðar um leið og samtíminn í dag sem verður orðin að fortíð morgundagsins verður rifjuð upp,“ segir Björg.
/MÞÞ