Tillaga um gjaldfrjálsa 6 tíma á leikskólum Akureyrarbæjar frá áramótum

Gagnast síst látekjufólki og fólki með lítið bakland sem mikilvægt er að samfélagið standi vörð um s…
Gagnast síst látekjufólki og fólki með lítið bakland sem mikilvægt er að samfélagið standi vörð um segja fulltrúar S- og V- lista í bæjarráði

„Líklegt er að breytingarnar gagnist síst lágtekjufólki og fólki með lítið bakland, sem er einmitt sá hópur sem sérstaklega mikilvægt er að samfélagið standi vörð um,“ segir í bókun Hildu Jönu Gíslasdóttur, S-lista og Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur V-lista sem lögð var fram á fundi bæjarráðs í tengslum við umræðu um tillögur sem er í vinnslu um að bjóða upp á 6 gjaldfrjálsa tíma í leikskólum Akureyrarbæjar og að tekjutengja leikskólagjöld.

Um tilraunaverkefni er að ræða til eins árs og gert ráð fyrir að breytingar taki gildi frá og með næstu áramótum. Áhugi er fyrir því meðal bæjarfulltrúa að tekjutengja leikskólagjöld og kom þessi vinnu upp í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir yfirstandandi ár. Einnig var í þeirri vinnu skoðaðir möguleikar á að bjóða upp á 6 tíma gjaldfrjálsa í leikskólum með tímagjaldi fyrir viðbótartíma. Gjaldfrelsið næði til tímans frá 8 til 14 og tímagjald kæmi eftir það. Fram kemur í minnisblaði sem nýverið var lagt fram í fræðslu- og lýðheilsuráði að kostnaður þeirra sem nýta hámarksdvöl, 8,5 tíma gæti hækkað um 11%. Samhliða gjaldfrelsi stendur til að tekjutengja gjöldin og verður tekið tillit til hjúskaparstöðu foreldra, einstæðir foreldrar munu áfram njóta afsláttarkjara.

Konur eru 95% starfsfólks leikskólanna

Markmiðið með breytingunni er að efna loforð meirihlutaflokkanna á bæjarstjórn um tekjutengingu gjalda og jafnvel gjaldfrjálsan leikskóla þó ekki sé enn komið að þeim tímamótum. Fram kemur í minnisblaði að ein hugmyndin sé að í þessu fyrirkomulagi felist hvati fyrir foreldra að stytta dvalartíma barna á leikskóla og lengja samverutíma foreldra og barna. Svigrúm gæti skapast í leikskólum til að mæta kröfum um styttingu vinnuvikunnar og undirbúningstíma starfsfólks og bætt þannig starfsumhverfi í leikskólum en það þykir krefjandi og hefur hlutfall fagmenntaðs starfsfólks í leikskólum bæjarins lækkað.

Mikill meirihluti starfsfólks leikskólanna eru konur, eða 95%. „Er því ljóst að verið er að huga að bættu starfsumhverfi stórrar kvennastéttar með möguleika á styttri vinnuviku, minna álagi og efndum um kjarasamningsbundinn undirbúningtíma,“ segir í minnisblaði. Þar kemur einnig fram að stjórnendur leikskóla hafi verðið jákvæðir fyrir þessum breytingum. Til stendur að bera hugmyndina undir hagsmunahópa foreldra og kalla eftir áliti Jafnréttisstofu á málinu.

Leikskólagjöld gætu hækkað um 13%

Hilda Jana og Jana Salóme segja í bókun sinni að fyrirhuguð þjónustuskerðing og gjaldskrárhækkun á fæðis- og leikskólagjöldum fyrir þau ríflega 85% foreldra sem nýta 8 til 8 og hálfan tíma á leikskólum sé varhugaverð og líklegt til að auka ójöfnuð. Leikskólagjöld gætu miðað við minnisblaðið hækkað fyrir stærstan hluta foreldra um allt að 13% auk þess sem horft er til þess að fæðisgjald hækki almennt um 9%. „Umræða um styttingu vistunartíma leikskólabarna þarf að eiga sér stað og er sérstaklega mikilvægt að foreldrar taki þátt í þeirri umræðu,“ segja þær.

Benda þær á að mikilvægt sé að bæta kjör og vinnuaðstæður starfsfólks leikskóla og einnig þurfi samfélagið að ræða skólatíma barna á leikskólum.  Bregðast þurfi við á jafnréttisgrundvelli og samvinna verður að vera við ríki, atvinnulífið og foreldra, „en ekki aðeins breyta fyrirkomulagi leikskóla. Stytting vinnuvikunnar er í kjarasamningum ekki kominn á þann stað að vera talin í klukkustundum á dag, heldur aðeins nokkrum mínútum og því ólíkleg ein og sér til þess að hafa veruleg áhrif á vistunartíma barna á leikskólum.“

Nýjast