„Tilfinningin er sú að sumarið hafi farið langt fram úr björtustu vonum“
Ferðasumarið á Norðurlandi hefur farið fram úr björtustu vonum þrátt fyrir erfiðar aðstæður að sögn Arnheiðar Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands.
„Við erum reyndar ekki komin með tölur fyrir júlí og ágúst en tilfinningin er sú að sumarið hafi farið langt fram úr björtustu vonum. Það hefur mikið verið bókað á veitingastöðum og bæði innlendir og erlendir ferðamenn hafa verið að leggja leið sína norður í miklum mæli,“ segir hún.
Jákvæðar sögur um allt Norðurland
Arnheiður segir að ferðamenn hafi verið að dreifa sér nokkuð vel um allt Norðurland þó vissulega sé mestur fjöldi í kringum þéttbýlisstaði eins og Akureyri, Siglufjörð, Mývatn og Húsavík. „Við höfum verið að heyra góðar sögur af öllum svæðum á Norðurlandi.“
Covid áhrifin
Þá tekur Arnheiður fram að Covid 19 faraldurinn hafi vissulega sett mark sitt á ferðaþjónustuna, veitinga- og gististaðir hafi þurft að laga sig að takmörkunum. Þeir hafi því ekki verið reknir á fullum afköstum. Tölur fyrir júní sína meðal annars að fjöldi ferðamanna hafi verið um 40% miðað við eðlilegt ár. „Við bíðum spennt eftir tölum fyrir júlí og ágúst því eins og ég segi þá eigum við von á mun betri tölum þar.“
Bandaríkjamenn vinsælir
Samsetning ferðafólks hefur einnig verið þannig að fleiri ferðamenn eru að stoppa lengur en oft áður. „Við höfum verið svo heppin að vera með mikið af Bandaríkjamönnum. Það eru ferðamenn sem bæði stoppa lengur, fara víðar og eru að kaupa meiri þjónustu og gistingu en margir aðrir hópa. Sömu sögu má segja um Íslendinga. Þeir haf verið mjög duglegir að ferðast og fara gjarna um allt,“ segir hún.
Vetrartíminn áhyggjuefni
Aðspurð að því hvor hún sé ánægð með hlutfall ferðamanna á Íslandi sem skila sér norður í land, segir hún svo vera. „Yfir sumartímann höfum við ekki haft yfir neinu að kvarta. Við erum að sjá góða umferð hingað Norður. Það er vetrartíminn sem er áhyggjuefni. Það er þá sem færri skila sér út á landi,“ segir hún og bendir á að vetrarferðir fólks séu oftar en ekki styttri og því sé fólk síður að leggja í langferðir á bíl.
„Það er undir okkur hér fyrir norðan komið að setja okkur á kortið og þar skiptir markaðssetning miklu máli,“ segir hún og bætir við að það hafi verið mjög jákvætt þegar Icelandair tók yfir innanlandsflugið til Akureyrar. „Nú er Akureyri orðin mun sýnilegri í bókunarkerfunum.“
Þá segir hún að unnið sé að því í samvinnu við ferðaskrifstofur að efla millilandaflug til Akureyrar.