Tilboði í frístundaakstur hafnað
Eitt tilboð barst í frístundaakstur fyrir nemendur í 1.-4. bekk í grunnskólum Akureyrarbæjar. Tilboðið var umtalsvert hærra en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir og var því hafnað af frístundaráði á fundi þess þann 1. september. Samfélagssvið Akureyrarbæjar óskaði nýlega eftir tilboðum í frístundaakstur fyrir tímabilið 6. september 2021-3. júní 2022. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Hugmyndin var að börnum á yngsta stigi yrði ekið úr skólum og á æfingar/tómstundir á milli kl. 13 og 16 á virkum dögum. Er þetta liður í stefnu bæjarins um samfellu í skóla- og frístundastarfi og kæmi frístundaaksturinn í staðinn fyrir rútuferðir sem einstök íþróttafélög hafa haldið utan um fyrir iðkendur í einstökum greinum.
Í ljósi þess að ekkert fullnægjandi tilboð barst þarf að leita leiða til að útfæra frístundaaksturinn með öðrum hætti. Samtal við íþróttafélög bæjarins er hafið og verður nánar upplýst um næstu skref þegar þau liggja fyrir. Hins vegar liggur fyrir að frístundaaksturinn fer ekki af stað í næstu viku eins og að var stefnt, segir í frétt á vef bæjarins.