Þyrla sótti skíðamann
Um hádegisbil var tilkynnt um erlendan ferðamann sem hafði í morgun farið upp frá Vermundarstöðum skammt frá Ólafsfirði á fjallaskíðum og hugðist sá skíða niður. Þegar hann hafði ekki skilað sér niður á áætluðum tíma var haft samband við Neyðarlínu og voru viðbragsaðilar ræstir út að því er fram kemur á facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Björgunarsveitir hófu strax leit á svæðinu og var aðgerðastjórn á Akureyri virkjuð. Um klukkan 14:30 tilkynnti björgunarsveit að þeir væru búnir að finna manninn ofarlega í fjallendi. Beðið var um útkall á þyrlu landhelgisgæslunnar sem kom á vettvang og var maðurinn hífður upp í þyrluna og fluttur brott af vettvangi á sjúkrahús. Björgunarsveitir á svæði 11 ásamt sjúkraflutningsmönnum og lögreglu tóku þátt í leitinni.
Aðstæður á vettvangi voru erfiðar en mjög bratt er á svæðinu þar sem að maðurinn fannst. Veðurskilyrði voru góð og gekk vel að koma manninum upp í þyrluna.