Þurfa að aka 260 km til að láta skoða bíla sína
Frumherji hefur ákveðið að hætta þjónustu á Kópaskeri og nágrenni eftir að starfsmaður Frumherja á Húsavík hætti störfum. Samstarfssamningi við verkstæðið Röndin á Kópaskeri hefur verið sagt upp.
Á fundi hverfisráðs Raufarhafnar var málið til umfjöllunar þar sem fram kom að ráðið harmar þá ákvörðun Frumherja að hætta bifreiðaskoðun á Kópaskeri og hvetur stjórnendur fyrirtækisins að endurskoða hana.
Vegna ákvörðunar Frumherja er ljóst að íbúar Kópaskers, Raufarhafnar og nágrennis þurfa að aka um langan veg eða 260 km, og taka sér frí úr vinnu a.m.k. í einn dag til að láta skoða ökutæki sín. Þetta bókar ráðið að sé sem óboðlegt. Þá er einnig bent á áhrif þessa á verktaka með vörubíla.
Hverfisráð Raufarhafnar óskaði eftir því að sveitastjórn Norðurþings komi þessum mótmælum á framfæri og aðstoði íbúa við þetta mál. Einnig að leita til annara aðila sem mögulega gætu sinnt þessari þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn hefur nú tekið undir þessa bókun vegna breytinga á þjónustu Frumherja við íbúa sveitarfélagsins. „Það er afar slæmt að ekki sé hægt að tryggja lágmarksþjónustu sem þessa við bifreiðaeigendur sem búa lengra frá stærri þéttbýliskjörnum á landsbyggðinni. Skorar sveitarstjórn Norðurþings á Frumherja, í samtali við ríkisvaldið að snúa þessari ákvörðun við og finna leið til þess að þjónusta íbúa sveitarfélagsins austan Húsavíkur með viðunandi hætti,“ segir í bókun sveitarstjórnar Norðurþings.