27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Þröngur rekstur en góðar horfur
Rekstur Grýtubakkahrepps verður þröngur áþessu ári, en gert er ráð fyrir að tap af rekstri samstæðu sveitarfélagsins verði 17 milljónir króna. Horfur eru bjartari til lengri framtíðar litið að því er fram kemur á vef sveitarfélagsins.
Enn er þó nokkur óvissa um endanlegar tekjur, sem og reiknaða liði á gjaldahlið. Horfur fara síðan verulega batnandi, enda munu hinar miklu framkvæmdir sem eru í gangi fara að skila vaxandi tekjum á næstu árum. Ekki er þó gert ráð fyrir þeim tekjuauka í áætluninni, hvorki í fasteignagjöldum né öðrum skatttekjum, áætlanir næstu ára eru því varfærnar að þessu leyti.
Gert er ráð fyrir töluverðum fjárfestingum á næstu árum. Áformað er að fara í uppbyggingu á skólalóðinni, undirbúning og síðan framkvæmdir við gatnagerð enda lausar lóðir að verða upp urnar. Þá er áformað að endurnýja dráttarvél Áhaldahúss, klára jarðvegsfrágang við nýja vatnstanka og endurnýja vatnstank fyrir frístundabyggð, bæta lóð við leikskóla og fleira smálegt. Á síðari hluta tímabilsins er einnig reiknað með að hefja endurbætur á fráveitu, með uppsetningu hreinsistöðvar og lengingu útrásar. Það er stórt verkefni og verður væntanlega klárað á einhverjum árum.
Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri og þjónustu sveitarfélagsins á næsta ári. Gjaldskrárhækkanir eru aðeins mismunandi, almennt hækka gjaldskrár um 4% sem er töluvert undir verðlagshækkunum. Gjöld í líkamsrækt og sundlaug hækka um 8 – 10%. Vistunargjöld leikskóla hækka ekki og eru þau óbreytt síðan 1. janúar 2016. Einnig verður óbreytt gjald fyrir börn í sund.
Rétt er að nefna að á þessu ári var aðgengi fatlaðra bætt verulega að sundlauginni. Settar voru upp rafmagnsopnanir á hurðir, keypt lyfta á útisvæðið og hjólastóll fyrir klefa/sturtur. Var þetta verkefni m.a. styrkt af húsnæðissjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Verðlag fasteigna hefur hækkað
Verðlag fasteigna í hreppnum hefur hækkað mikið á síðustu misserum. Fasteignamat eigna í Grýtubakkahreppi hækkar um 25% milli ára en sú hækkun kemur þó töluvert misjafnlega niður. Langmest hækkar mat íbúðarhúsnæðis á Grenivík, eða um allt að 40%. Álagningarprósentur verða að mestu óbreyttar, en til að milda áhrif hinna miklu hækkana á Grenivík, verður vatnsskattur lækkaður um fimmtung, eða úr 0,25% í 0,20%. Þá verður gjalddögum fasteignagjalda fjölgað úr 7 í 8 sem dreifir greiðslubyrði meira en áður.