27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Þrír slasaðir eftir snjóflóð í Svarfaðardal
Neyðarlínu tilkynning Kl 19:10 í kvöld um að snjóflóð hefði fallið í Svarfaðardal fyrir ofan bæinn Skeið. Fram kom að þrír aðilar hefðu orðið fyrir flóðinu og var tilkynnandi einn þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Þegar var kallað út mikið lið viðbragðsaðila og aðgerðarstjórn virkjuð á Akureyri. Virkjuð var hópslysaáætlun almannavarna og óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar á vettvang.
Þegar fyrstu viðbragðsaðilar komu á vettvang kl. 19:55 fundu þeir strax tvo menn og var annar þeirra slasaður. Stuttu síðar fannst sá þriðji í jaðri flóðsins og var hann einnig slasaður.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, m.a. með tvo lækna innanborðs, lenti skammt frá vettvangi um kl. 21:10 og flutti einn slasaðan einstakling af vettvangi á sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. Hinir tveir aðilarnir sem urðu fyrir flóðinu og slösuðust einnig voru fluttir af vettvangi með sjúkrabifreiðum á sjúkrahúsið á Akureyri. Allir þrír aðilarnir sem urðu fyrir flóðinu eru af erlendu bergi brotnu. Áætlað er að um 130 viðbragðsaðilar hafi komið að aðgerðunum í Svarfaðardal.
Aðgerðum á vettvangi lauk rétt fyrir miðnætti. Þeir sem slösuðust í flóðinu voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri. Einn þeirra var fluttur með sjúkraflugi á Landspítalann. Um er að ræða bandaríska ferðamenn sem eru sagðir vera vanir útivistar og fjallamenn. Frekari upplýsingar um málsatvik liggja ekki fyrir að svo komnu en rannsókn heldur áfram í fyrramálið.