Þrír sjúklingar með Kóvid liggja inni á SAk, einn í öndunarvél
Einn sjúklingur er inniliggjandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyr auk þes sem tveir aðrir sjúklingar liggja á Kóvid-19 deild SAk.
Covid-19 faraldurinn er í mikilli aukningu innanlands þessa dagana. Daglega eru slegin met í fjölda nýrra smita á landsvísu og á það einnig við um upptökusvæði sjúkrahússins. Síðastliðinn sólarhring voru greind yfir 190 ný smit og þar af 15 á Norðurlandi.
Ef fram heldur sem horfir má búast við fleiri innlögnum og mun þá verða horft til frekari samdráttar í þjónustu en nú er og þá sérstaklega á valkvæðum aðgerðum. Vonast er til að ekki þurfi að koma til þess að því er fram kemur á vefsíðu SAk.
Enn sem komið er hefur tekist að halda úti nánast óskertri starfsemi og eru t.d. valaðgerðir í gangi samkvæmt áætlun. Staðan er þó viðkvæm því veikindin auka álagið á sjúkrahúsið auk þess sem veikindi og sóttkví hafa áhrif á mönnun sjúkrahússins.
Sjúkrahúsið er á hættustigi og hefur verið gripið til ýmissa aðgerða. Nefna má tímabundið heimsóknarbann á legudeildum sjúkrahússins og annar gestagangur er takmarkaður sem unnt er.