Þrír af fjórum strætóum á Akureyri verða metan
Tveir metan strætisvagnar hafa verið pantaðir til viðbótar á Akureyri og verður annar þeirra afhentur síðar á þessu ári, en hinn árið 2019. Þar með munu þrír af fjórum strætisvögnum bæjarins ganga fyrir umhverfisvænum orkugjöfum. Í janúar 2017 var skrifað undir samning um ársleigu á metanstrætisvagni til reynslu.
Á vef Akureyrarbæjar segir að reynslan af notkun vagnsins hefur verið ákaflega góð og því var ákveðið að Akureyrarbær keypti vagninn þegar leigutíminn rann út. Ingibjörg Ólöf Isaksen, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs, segir að nú hafi verið stigið stórt skref í þá átt að gera allan strætóflotann umhverfisvænan.
„Í umhverfis- og samgöngustefnu bæjarins segir að stefnt skuli að því að allir strætisvagnar bæjarins noti umhverfisvæna orkugjafa fyrir árið 2020 og það er alls ekki óraunhæft að svo verði. Hins vegar er ómögulegt að segja hvort fjórði vagninn verði metanvagn eða eitthvað annað því þróunin er svo ör í þessum málum," segir Ingibjörg á vef Akureyrarbæjar.