Þríburar frá Húsavík stunda nám við Háskólann á Akureyri
Ágúst Þór Brynjarsson, Rúnar Þór Brynjarsson og Særún Anna Brynjarsdóttir eru þríburar frá Húsavík og stunda öll nám við Háskólann á Akureyri. Ágúst er í viðskiptafræði, Rúnar í fjölmiðlafræði og Særún í sjávarútvegsfræði. „Maður fær oft skemmtileg viðbrögð þegar upp kemst að maður er þríburi,“ segir Rúnar og Særún bætir við: „En fjárhagslega er það ekki að gera sig því ég þarf alltaf að kaupa tvær afmælisgjafir og tvær jólagjafir handa bræðrum mínum og svo er dýrara að bjóða þeim í mat.“
Við þetta bætir Ágúst: „Og greyið mamma og pabbi í gegnum tíðina!,“ segir hann. Þríburarnir segja hafa lært meira saman fyrir Covid og fóru alltaf saman í hádegismat. En af hverju völduð þau HA? „Ég valdi viðskiptafræði þar sem mér leist mjög vel á skipulagið á náminu, sveigjanleikann og aðstöðuna í skólanum,“ segir Ágúst. „Mér finnst skemmtilegast hvað námið tengist atvinnulífinu vel. Það er hægt er að taka mjög margt úr náminu og nýta það þegar maður fer út á vinnumarkaðinn. Einnig í skilningi á t.d. fréttum, orðatiltækjum og því sem er í gangi í viðskiptaheiminum.“
Særún segist hafa valið nám við HA þar sem að námið þar er persónulegt. „Eins og ég var vön heima í Framhaldsskólanum á Húsavík. Það er frábær aðstaða í HA til þess að stunda nám og svo hjálpaði það mér líka að fá að búa áfram í sama bæjarfélagi og bræður mínir og nálægt fjölskyldunni á Húsavík. Það skemmtilegasta við sjávarútvegsfræðina er að þar er mikið verklegt. Svo finnst mér frábært að fá að heimsækja fyrirtæki og fá fólk úr bransanum til þess að kynna fyrir okkur hvað þau eru að gera eftir útskrift,“ segir Særún.
Stefna á brautskráningu í vor
„Ég var búinn að leita og leita að námi fyrir mig. Svo datt ég inn á fjölmiðlafræði í HA og þá var ekki aftur snúið,“ segir Rúnar. „Að læra það sem maður hefur áhuga á er það langskemmtilegasta við námið.“ Ágúst, Særún og Rúnar stefna öll á brautskráningu vorið 2022. „En í sumar mun ég starfa í Arion banka, gigga sem trúbador og ferðast um landið“, segir Ágúst. Að loknu námi stefnir hann ótrauður á vinnumarkaðinn og starfa við eitthvað viðskiptatengt. „Síðan er planið að fara erlendis í framhaldsnám.“
Rúnar bróðir hans mun starfa hjá Vís í sumar og spila fótbolta með Magna á Grenivík. Eftir námið langar Særúnu í skemmtilega vinnu áður en hún hefur framhaldsnám. Í sumar mun hún vinna sem verkefnastjóri sjávarútvegsskólans, ferðast og hafa gaman. „Ég hlakka þó mest til útilegu Stúdentafélags HA, það er frekar ný og skemmtileg hefð,“ segir Særún.