Þreföld aukning í mataraðstoð fyrir jól

Sigrún Steinarsdóttir og Sunna Ósk Jakobsdóttir halda úti síðunni Matargjafir á Akureyri og nágrenni…
Sigrún Steinarsdóttir og Sunna Ósk Jakobsdóttir halda úti síðunni Matargjafir á Akureyri og nágrenni á Facebook. Margir eru í neyð fyrir jólin og mikil aukning á milli ára. Mynd/Margrét Þóra.

Sigrún Steinarsdóttir og Sunna Ósk Jakobsdóttir halda úti síðunni Matargjafir á Akureyri og nágrenni á Facebook, en núna fyrir jólin eru fjölmargir sem þurfa á aðstoð að halda. Þær búast við þrefaldri aukningu á milli ára.

„Það hefur verið aukning á mataraðstoð síðan í mars á þessu ári. Um 220 fjölskyldur hafa verið að fá aðstoð í hverjum mánuði hjá okkur. Miðað við þessa fjölgun eigum við von á að aukningin verði þreföld nú fyrir jólin. Síðustu jól voru um 100 fjölskyldur sem fengu jólaaðstoð en við búumst við að þær verði um 300 þetta árið,“ segja þær Sigrún og Sunna í samtali við Vikublaðið.

Fólkið sem þarf á hjálp að halda er á öllum aldri, mest þó ungt fólk í vinnu sem er á leigumarkaði og með börn. „Einnig eru þetta einstæðir öryrkjar með börn, eldra fólk á ellilífeyri og fleiri. Þá fáum við líka ábendingar um fólk í vanda og keyrum þá mat til þeirra. Það hefur þónokkuð komið inn af ábendingum þetta árið.“ Þær segja íbúa á svæðinu vera duglega við að svara kallinu og gefa í mataraðstoðina. „Án þeirra hefðum við ekki getað haldið þessari starfsemi í rúm sex ár en þetta eru sjöundu jólin okkur. Við auglýsum inn á Facebooksíðunni og fólk bregst alltaf við og aðstoðar.“

Rúmlega 2.200 manns skráðir inn á Facebooksíðuna og hefur fjöldinn farið vaxandi síðustu ár. „Við teljum mun fleiri vera í neyð á svæðinu en fólk gerir sér grein fyrir miðað við það að 220 fjölskyldur hafi að meðaltali fengi aðstoð hjá okkur mánaðarlega frá því í mars á þessu ári. Það er meira en helmings fjölgun miðað við árið í fyrra.“

Hafi fólk tök á að rétta fram hjálparhönd benda Sigrún og Sunna á að hægt er koma með mat í Snægil 21, íbúð 102, koma með Bónuskort eða leggja inn á reikninginn 1187-05-250899, kennitala 670117-0300.

-þev

Nýjast