Þorsteinn Jakob er ungskáld Akureyrar 2021

Lengst til vinstri er Halldór Birgir Eydal, þá Þorbjörg Þóroddsdóttir og fremstur situr Þorsteinn Ja…
Lengst til vinstri er Halldór Birgir Eydal, þá Þorbjörg Þóroddsdóttir og fremstur situr Þorsteinn Jakob Klemenzson. Myndina tók Ragnar Hólm Ragnarsson.

Úrslit í ritlistakeppni Ungskálda 2021 voru kynnt í Amtsbókasafninu á Akureyri síðdegis. Fyrstu verðlaun hlaut Þorsteinn Jakob Klemenzson fyrir „Vá hvað ég hata þriðjudaga!“ Í öðru sæti var Halldór Birgir Eydal með „Ég vil ekki kaupa ný jakkaföt“ og Þorbjörg Þóroddsdóttir hreppti þriðja sætið fyrir verk sitt „Mandarínur“. Alls bárust 52 verk frá 29 þátttakendum í keppnina að þessu sinni.

Fyrr í haust var haldin sérstök ritlistasmiðja í Menntaskólanum á Akureyri í tengslum við Ungskáld 2021 en ekki var unnt að halda slíka smiðju í fyrra vegna Covid-19. Leiðbeinendur voru Fríða Ísberg og Halldór Laxness Halldórsson, eða Dóri DNA. Þátttaka í smiðjunni var mjög góð en rétt er að taka fram að það var á engan hátt skylda að sitja smiðjuna til þess að taka þátt í ritlistakeppninni.

Í dómnefnd sátu að þessu sinni Finnur Friðriksson, dósent við HA, Hólmfríður Andersdóttir, fyrrverandi bókavörður á Amtsbókasafninu, og Þórður Sævar Jónsson, ljóðskáld og þýðandi, sem jafnframt var formaður dómnefndar.

Að verkefninu standa Amtsbókasafnið á Akureyri, Akureyrarstofa, Ungmennahúsið í Rósenborg, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Akureyri. Ungskáldaverkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Nýjast