Þórsarar eru Scania Cup meistarar 2017

Þórsararnir fögnuðu vel í leikslok.
Þórsararnir fögnuðu vel í leikslok.

10. flokkur Þórs í körfubolta tók þátt í Scania Cup í Svíþjóð um páskahelgina en mótið er óopinbert norðurlandamót félagsliða í körfubolta. Akureyrarpiltar gerðu sér lítið fyrir og fóru alla leið í úrslitaleikinn, annað árið í röð. Í þetta sinn var alíslenskur úrslitaleikur því mótherjarnir voru Stjarnan úr Garðabæ. 

Þórsarar mættu grimmir til leiks líkt og í öðrum leikjum mótsins og náðu strax öruggri forystu. Þór leiddi með 10 stigum í hálfleik 35-45. Í síðari hálfleik bættu Þórsarar í og lönduðu öruggum 69-93 sigri og eru því Scania Cup meistarar 2017 í sínum árgangi (drengir fæddir 2001). Allir leikmenn Þórs spiluðu úrslitaleikinn og stóðu sig með mikilli prýði eins og lokatölur leiksins sýna.

Í leikslok var Baldur Örn Jóhannesson var valin mikilvægasti (MVP) maður leiksins og Júlíus Orri Ágústsson Scania Cup King og hann er einnig í liði mótsins, þá fékk Sindri Sigurðarson verðlaun fyrir baráttu / (fighting spirit).

Eins og áður hefur komið fram er þetta í annað sinn sem þessir drengir spila til úrslita á Scania Cup en þeir fóru alla leið í úrslit á síðasta ári og
komu þá heim með silfrið. Þetta er frábær árangur hjá Þórsurum og ekki síður hjá Stjörnunni, og það má ljóst vera að framtíð íslenska
körfuboltans er björt.

-epe

Nýjast