Þéttbýlið við Lónsbakka í Hörgársveit: Skoða möguleika á stækkun

Miklar framkvæmdir verða á vegum Hörgársveitar á yfirstandandi ári, en sveitarfélagið stækkar ört og…
Miklar framkvæmdir verða á vegum Hörgársveitar á yfirstandandi ári, en sveitarfélagið stækkar ört og styrkja þarf innviðina.

„Við skoðum alla möguleika sem fyrir hendi eru með stækkun á Lónsbakkahverfinu,“ segir Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri í Hörgársveit. Hverfið hefur stækkað hratt frá því framkvæmdir við byggingu íbúða hófst við tvær nýjar götur í hverfinu. Eftirspurn eftir lóðum er mikil og segir hann að reynt sé að bregðast við henni.Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri í Hörgársveit

Hugmyndir um uppbyggingu á nýju svæði norðan við Lónsbakkahverfið, á gamla Dagsbrúnarvellinum hafa m.a. verið viðraðar. Snorri segir skipulag skammt á veg komið og áður en af yrði séu margs konar úrlausnarefni sem takast þurfi á við. Eitt þeirra er hugsanleg breyting á legu þjóðvegar 1 og segir Snorri að sveitarfélagið sé nokkuð ákaft að ýta á Vegagerðina að koma opinberlega með tillögur varðandi framtíðarvegstæði á þessum slóðum. „Þetta skiptir okkur máli þegar kemur að framtíðar uppbyggingu á svæðinu,“ segir hann.

Svæði við Lónsá að opnast fyrir byggð

Annað svæði sem hugsanlega verður nýtt undir íbúðabyggingar er við gistiheimilið Lónsá og tjaldsvæði í tengslum við það. Eigandinn hefur ákveðið að hætta sinni starfsemi og óskað eftir að skipta landi sínu upp og segir Snorri að við það opnist möguleikar á að byggja örfá íbúðarhús auk svæðis fyrir verslun eða þjónustu. Málið sé enn í frumskoðun og því ekki vitað hvað verður. Sama er uppi á teningnum varðandi reitinn þar sem Húsasmiðjan og Blómaval hafa verið starfandi undanfarin ár, en sú starfsemi verður flutt til Akureyrar innan tíðar. Snorri segir ekki á þessari stundu vitað hvað um það húsnæði verður.

„Það er útlit fyrir að hér verði áframhaldandi uppbygging næstu árin og stefnan er að íbúar verði um eitt þúsund talsins í upphafi ársins 2026,“ segir Snorri. Íbúar voru rétt yfir 700 um nýliðin áramót og hafði fjölgaði um 8% milli áranna 2020 og 2021.  Þar munar um mikla fjölgun í Lónsbakkahverfinu, þar sem þegar eru um 200 íbúar. Þeir verða um 400 þegar lokið verður við byggingar þeirra húsa sem yfir standa eða eru ráðgerðar.

Þá nefnir Snorri að nýtt hverfi, Hagabyggð sé í uppbyggingu við Glæsibæ og þar verði í allt 30 stórar einbýlishúsalóðir. Fyrri áfangi sé vel á veg komin og flestar lóðir seldar en skipulagsvinna standi yfir við seinni áfangann. Um 70 íbúar muni búa á því svæði til framtíðar litið.

Góður fjárhagur kemur sér vel á sögulega miklu framkvæmdaári

„Það ríkir almennt bjartsýni hér í sveitarfélaginu og við finnum fyrir áhuga fólks á að flytja hingað,“ segir hann og bætir við að fram undan séu áskoranir í uppbyggingu til að styrkja innviðina þannig að hægt verði að taka sem best á mótum nýjum íbúum. Leikskólinn Álfasteinn verður stækkaður í fjórða sinn á fáum árum og hafin endurbygging á hluta Þelamerkurskóla, heimavistarálman verður tekin í notkun sem kennsluhúsnæði. Kostnaður við margs konar framkvæmdir á þessu ári verður sá mesti í langan tíma, áætlaður að sögn Snorra vel á þriðja hundrað milljónir.

„Fjárhagurinn er traustur og rekstur gengið vel þrátt fyrir erfiða tíma. Góð afkoma sveitarfélagsins gerir að verkum að við höfum bolmagn til að fara út í þessar fjárfrekur framkvæmdir án þess að steypa okkur í miklar skuldir,“ segir Snorri.

/MÞÞ

Nýjast