„Þetta er í raun og veru sturluð hugmynd“

Pedro Rodrigues, Halldóra Gunnarsdóttir og Pétur Þorsteinsson mótmæla fyrirætlunum um vindorkuver á …
Pedro Rodrigues, Halldóra Gunnarsdóttir og Pétur Þorsteinsson mótmæla fyrirætlunum um vindorkuver á Hólaheiði. Mynd/epe

Á fundi sveitarstjórnar Norðurþings í síðustu viku var tekin fyrir tillaga Kolbrúnar Ödu Gunnarsdóttur fráfarandi forseta sveitarstjórnar um að fresta umfjöllun sveitarstjórnar um skipulagsbreytingar í tengslum við vindorkuver á Hólaheiði þar til umhverfismati er lokið að fullu. Með þeim hætti verði málsmeðferð best háttað enda liggja þá niðurstöður ítarlegra rannsókna, upplýsingaöflunar og opinbers samráðs fyrir áður en sveitarstjórn tekur sínar veigamiklu stefnumarkandi ákvarðanir um landnýtingu í gegnum Aðalskipulag. Tillaga Kolbrúnar var samþykkt samhljóða.

Fyrirtækið Quair Iceland hefur unnið að því að reisa vindorkuver á Hólaheiði á  Melrakkasléttu. Til stendur að reisa allt að 40 vindmyllur sem eru 200 metrar á hæð með spaða í hæstu stöðu. Til þess að fyrirætlanirnar gangi fram að ganga þarf að breyta aðalskipulagi Norðurþings þannig að umrætt land verði skilgreint sem iðnaðarsvæði en ekki landbúnaðarsvæði eins og nú er.

Mótmæla framkvæmdum

Hópur náttúruverndarsinna sem kallar sig Logn á Melrakkasléttu mótmælir fyrirhuguðum framkvæmdum harðlega og segja hugmyndina sturlaða. Fulltrúar hópsins fjölmenntu á fund sveitarstjórnar og mátti finna fyrir létti innan hópsins þegar tillaga Kolbrúnar var samþykkt.

Vikublaðið ræddi við Halldóru Gunnarsdóttur, meðlim hópsins að loknum sveitarstjórnarfundi. „Þetta mun auðvitað gjörbreyta Melrakkasléttu, mikil náttúruspjöll því eins og gefur að skilja þá þarf 200 metra hátt mannvirki gríðarlegar undirstöður, ekkert smá vegakerfi sem fylgir þessu,“ segir Halldóra og bætir við að ef hugmyndirnar nái fram að ganga muni ímynd svæðisins breytast og hún spyr hvort það sé vilji íbúa?

„Viljum við einkenna okkur af víðernum og náttúru á þessu svæði eða viljum við stóriðjusvæði. Mitt svar er alveg skýrt. Við viljum ekki stóriðju,“ segir Halldóra

Halldóra bendir jafnframt á það að aldrei hafi fengist viðunandi svör um hvernig eigi að nýta orkuna en samkvæmt úttekt Eflu verkfræðistofu yrði raforkuframleiðsla allt að 200 MW. 

 Óvissa um nýtingu orkunnar

„Enn ríkir óvissa um það hvernig orkan verði nýtt. Þá er um erlendan aðila í orkuöflun á Íslandi að ræða og bara það hugtak fellur okkur ekki í geð,“ segir Halldóra og bætir við að allt í þessu máli vekji upp tortryggni.

Þá gagnrýnir Halldóra kynningarferlið og segir að fyrirætlanir Quair Iceland hafi komið aftan að fólki austan Tjörness.

"Sveitarstjórnin leggur af stað í skipulagsbreytingar sem er grundvöllurinn fyrir þessu; að breyta landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði þar sem reisa á vindorkuver og okkur þykir kynnigarferlið afar lélegt. Við fréttum ekki af þessu nema fyrir tilviljun en þó skiptir þetta gríðarlegu máli fyrir fólk austan Tjörness að það er ekki lögð nein áhersla á að kynna þetta fyrir okkur heldur er bara lagt af stað í skipulagsbreytingar.“

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings sagði í samtali við blaðið að eðlilega hafi verið staðið að kynningu á verkefninu miðað við hversu langt það væri á veg komið. Hann vísar meðal annars til kynningarfundar sem haldinn var á Kópaskeri 14. júní sl. Á fundinn mættu fulltrúar framkvæmdaaðila Qair Iceland ehf, ráðgjafar frá Eflu og einnig mættu til fundarins fulltrúar Norðurþings sem skipulagsyfirvalds. Auk þess hafi fulltrúar Norðurþings mætt á íbúafund á Kópaskeri þann 18. júlí sl.að beiðni hverfisráðs Öxarfjarðar þar sem málefni Vindorkuversins voru rædd.

Gjörbreytt ásýnd

Halldóra segir það afar jákvætt að tillaga Kolbrúnar hafi verið samþykkt. „Þetta gefur okkur a.m.k meiri tíma til að kynna þetta fyrir fólki og gera fólki ljóst hvað þetta er í raun og veru sturluð hugmynd. Við höfum notað sem viðmið að Hallgrímskirkjuturn er 73 metrar á hæð. Þetta er þrisvar sinnum það á hæð og mun sjást um alla sléttu. Allir okkar helstu ferðamannastaðir myndu verða ljósmyndaðir með vindmyllum í bakgrunni. Heimskautagerðið og nyrstu tangar þessa lands. Þannig að ferðaþjónustan hefur ekki tekið þessu vel,“ segir hún að lokum.

Nýjast