Þankar Ingólfs Sverrissonar XV
Fæðuöryggi var ekki efst á baugi fyrri hluta síðustu aldar þegar hætta var á að landið einangraðist vegna stríðsátaka. Landsmenn höfðu mun meiri áhyggjur af kolaskorti, að þeir gætu ekki hitað upp híbýli sín og vatn af þeim sökum. Hvorugt var hægt án kola sem voru í miklum birgðum niðri á Oddeyri og í miðbænum; því stærri sem kolafjöllin voru veittu þau bæjarbúum meira öryggi. Frá þeim var ekið með kolin í stórum strigapokum í öll hús bæjarins. Til þess voru brúkaðir sérhannaðir vörubílar með pöllum sem voru lægra settir en almennt gerðist á vörubílum. Því áttu kolakarlarnir auðveldara með að ná pokunum af pöllunum beint á bakið og gengu síðan með þá í húsin. Þeir voru ávallt með þykka skinnsvuntur á bakinu til hlífðar og þær spenntar með breiðum skinnólum fram á brjóst. Þegar kolakarlarnir roguðust dökkir á brún með þessa stóru og þungu poka af kolabílunum þótti okkur strákunum að þarna færu ofurmenni og tæpast af þessum heimi; sannkallaðir púlsmenn.
Þessir vösku menn hvolfdu úr pokunum niður í kjallara hjá okkur í Ránargötu 16 þar sem kolaofninn beið þyrstur eftir meiri kolum til að brenna og veita hlýju og yl í húsið okkar góða. Fyrr en varði var tími kolakyndinga liðinn því ný tækni og aðgengilegri hafði haslað sér völl. Fyrirtæki í bænum fóru að flytja inn olíu í stórum stíl og boðuðu nýja og betri tíma. Upp risu stærðarinnar olíutankar með ströndum Oddeyrarinnar frá ESSO, BP og Shell og þá eignaðist Akureyri sína olíufursta í stað kolakaupmanna. Það þótti strax betra að lúta furstum en kaupmönnum.
Karl faðir minn tók þessum tíðindum fagnandi og smíðaði sjálfur olíukyndingu fyrir okkur enda dverghagur járnsmiður. Setti nýju kyndinguna svo haganlega inn í gamla kolaofninn og tengdi með leiðslu við nýja olíutankinn austan hússins. Og sjá - undravökvinn seytlaði inn í tækið og það logaði af kurteisi og staðfestu og það sem meira var: Ekkert þurfti að hreinsa út og bæta á sí og æ eins og í kolakyndingunni. Það sem skipti þó mestu máli var að nýja tækið hitaði allt upp og við vorum viss um að ekki yrði komist lengra í þessum efnum. Fullkomnuninni hefði verið náð. Þá kom olíukreppan; olíuprísarnir ruku upp úr öllu valdi og ekki við neitt ráðið. En eins og svo oft áður hafa kreppur og mótlæti oft leitt til nýrra og óvæntra lausna. Þegar öll sund virtust lokuð og ekki annað sýnna en hverfa þyrfti aftur til kolanna var bent á að hugsanlega væri hægt að feta sömu braut og þeir fyrir sunnan höfðu farið. Þeir boruðu einfaldlega ofan í fósturjörðina og gátu þannig náð upp heitu vatni sem streymdi nú um flest hús á þeim slóðum.
Eftir mikið japl, jaml og fuður var farið inn í fjörð og málið leyst með því að leggja þaðan hitavatnsleiðslu til bæjarins og hleypa svo á. Þar með hófst þriðja hitunartímabilið á einni mannsævi; með því voru öll kolafjöll, allur kolaburður og olíusukk úr sögunni. Segið svo að heimurinn fari ekki sífellt batnandi!
Ingólfur Sverrisson