Þakklát fyrir góð viðbrögð við blóðsöfnun
„Viðtökur við aukaopnun voru mjög góðar, við fengum til okkar bæði virka blóðgjafa sem og nýja sem vildu leggja okkur lið. Við erum óendanlega þakklát fyrir góð viðbrögð, en betur má ef duga skal,“ segir Birgitta Hafsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá Blóðbankanum, en þau boð gengu út í liðinni viku að blóðgjafa vantaði því öryggisbirgðir Blóðbankans væru fremur litlar um þessar mundir.
Birgitta segir blóðgjafa norðan heiða hafa verið mjög öfluga síðustu misseri og góður árangur náðst í blóðsöfnun á Akureyri eftir að ný og betri aðstaða var opnuð á Glerártorgi árið 2018. „Aðstaðan þar er öll til fyrirmyndar og ættu að gera Norðlendinga stolta,“ segir hún.
Mikil notkun á blóðhluta undanfarið hefur valdið skorti á blóði, en Birgitta segir að Blóðbankinn ítreki að allir sem á þurfa að halda hafi fengið blóðhluta. „Lagerstaðan snýst um að eiga öryggisbirgðir til að bregðast við óvæntum uppákomum þegar nokkrir einstaklingar þurfa mikið magn blóðhluta á skömmum tíma,“ segir hún.
Ekki hægt að tryggja fjarlægðarmörk í Blóðbílnum
Blóðbíllinn svonefndi sem fór á milli staða og fólki bauðst að koma í og gefa blóð, hefur ekki verið á ferðinni undanfarið og segir Birgitta að ekki hafa verið hægt að tryggja tilskilin fjarlægðarmörk vegna kórónuveiru í bílnum. „Við höfum hvatt blóðgjafa sem búa í nágrenni Akureyrar að koma við hjá okkur þegar þeir eiga leið um Glerártorg,“ segir hún.
Eftir að Blóðbankinn flutti starfsemi sína á Glerártorg hefur söfnun aukist, farið úr 31 einingu á viku í nóvember árið 2018 í 44 einingar miðað við byrjun nóvembermánaðar nú.
/MÞÞ