Það á að gefa börnum brauð að bíta í á jólunum -Laufabrauð hátíðarmatur Íslendinga
Laufabrauð hefur verið hátíðarmatur íslendinga í áranna raðir. Talið er að elsta heimildin um laufabrauð sé frá 1772. Þá hélt Bjarni Pálsson landlæknir veislu heima hjá sér þar sem meðal annars var borið fram laufabrauð.
Sveinn Brimar Jónsson skrfar
Lengi vel var brauð aðeins á borðum almennings til hátíðarbirgða þar sem hráefni í það var dýrt. Þar af leiðandi var farið að baka örþunnt brauð um jólin svo allir gætu fengið. Í kvæðinu „Það á að gefa börnum brauð…“ er einmitt sú setning sem ætla má að sé um laufabrauðið. Til að gera laufabrauðið hátíðlegt var farið að skera út fallegar myndir í það. Talið er að Norðurland sé fyrsti staðurinn þar sem laufabrauðið var talið hátíðarbrauð almennings.
Margir eiga sér þá hefð að setjast niður í byrjun jólahátíðarinnar og skera út laufabrauð saman. Það er svo steikt og borðað, ýmist eintómt eða með öðrum mat.
Laufabrauð úr hveiti
1 kg hveiti
1½ tsk. lyftiduft
1 tsk. salt
7 dl mjólk
3-4 pakkar af jurtafeiti, palmín, 1½ - 2 kg
Laufabrauð með heilhveiti
750 g hveiti
250 g heilhveiti
1 tsk. salt
1½ tsk. lyftiduft
7½ dl mjólk
Laufabrauð mömmu (með kúmeni) um 30 kökur
Hráefni:
700 g hveiti
300 g heilhveiti
70 g sykur
2 tsk. lyftiduft
1½ -2 tsk. salt
75 g smjörlíki
7-8 dl snarpheit mjólk
40-50 g malað kúmen
Aðferð
Sjóðið mjólkina.
Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti. Setjið mjólkina út í.
Hnoðið deigið þar til það er gljáandi og sprungulaust.
Skiptið deiginu í litla bita sem eru hæfilegir fyrir hverja köku.
Fletjið út, leggið disk ofan á og skerið í kring með kleinuhjóli eða hníf.
Leggið kökurnar á stykki og breiðið yfir þær þar til þær eru skornar út og síðan aftur þar til þær eru steiktar.
Laufabrauð úr rúgmjöli
500 g hveiti
500 g rúgmjöl
2 tsk. lyftiduft
2 msk. sykur
2 tsk. salt
70 g smjörlíki
½ lítri sjóðandi mjólk
½ lítri sjóðandi vatn
3-4 pakkar af jurtafeiti, palmín, 1½ - 2 kg
Aðferð
Blandið saman hveiti, rúgmjöli, lyftidufti, sykri og salti.
Skerið smjörlíkið smátt og myljið út í mjölið.
Sjóðið saman mjólk og vatn og hrærið út í deigið.
Skiptið deiginu í litla bita.
Farið eftir fyrri aðferð.
Útskornar og tilbúnar til steikingar