Taka bakföll yfir samdrætti í umferð
Umferðin á Hringvegi í september dróst saman um heil 16,3 prósent sem er sjöfalt meiri samdráttur en áður hefur mælst. Þannig að um gríðarlega mikinn samdrátt er að ræða. Hér stýrir kórónufaraldurinn för og fækkun ferðamanna enda hefur umferð á ferðamannaleiðum dregist saman um t.d. 75 prósent á Hringvegi í Lóni. Þar munar væntanlega mestu um ferðamennina. Útlit er fyrir 11-12 prósenta samdrátt í ár, sem hefur ekki áður mælst svo mikill.
Gríðarlegur samdráttur varð í umferð í nýliðnum septembermánuði borið saman við sama mánuð á síðasta ári, um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, eða 16,3% samdráttur. Þetta er langstærsti samdráttur, milli septembermánaða, í umræddum mælisniðum. Áður hafði mest mælst 2,6% samdráttur milli áranna 2007 og 2008. Þetta er því tæplega sjöfalt meiri samdráttur en áður hefur mælst. Leita þarf aftur til ársins 2015 til að finna minni umferð í september á Hringvegi.
Á Norðurlandi hefur umferð dregist mjög mikið saman það sem af er ári miðað við 2019. Mestur er samdrátturinn í apríl. Um Öxnadal óku 65,2% færri í apríl miðað við sama mánuð fyrir ári og samdrátturinn um Mývatnsöræfi voru heil 75,8%. Heildarsamdráttur fyrir Norðurland í apríl var 58,8% á milli ára. Samdráttur fyrir september er 38% á milli ára.
„Ef við tökum t.d. Kræklingahlíð þá erum við með samdrátt upp á 24 prósent í september miðað við sama mánuð fyrir ári. Það þætti nú einhvern tíma saga til næsta bæjar. Ef apríl er skoðaður þá er samdrátturinn 48 prósent milli ára. Þetta er svo skelfilegt að við erum bara ekki vön svona svakalegum tölum. Við höfum séð kannski svona 10-15 prósent og þá tekur maður bakfall,“ segir Friðleifur Ingi Brynjarsson verkefnastjóri Vegagerðarinnar á Akureyri í samtali við Vikublaðið.
Friðleifur segir að samdráttinn megi bæði rekja til þess að erlendir ferðamenn hafa horfið úr umferðinni vegna kófsins en einnig afleidd umferð Íslendinga. „T.d. vöruflutningar til ferðamannastaða. Svo bætist það við að Íslendingar eru líka að fara færri ferðir vegna faraldursins því þeir eru ekki að fara á milli landshluta nema brýna nauðsin beri að,“ segir hann.