Sýning í Mjólkurbúðinni Þessir helvítis fordómar
„Þessir helvítis fordómar. Af hverju valdi ég þetta viðfangsefni? Af því ég er miðaldra kelling og enn þá að læra,“ segir Anna María Hjálmarsdóttir sem opnar á morgun fimmtudaginn 14. september sýningu í Mjólkurbúðinni. Bæði er um að ræða málverk og ljósmyndir.
„Það sem ég sagði á mínum yngri árum myndi ég aldrei segja, eða hreinlega hugsa, í dag og sýnir það þróun í góða átt. Ég held samt að ég hafi verið minn versti óvinur á þessu sviði því ég hef alloft verið á þeim stað í lífinu að ég hafi upplifað fordóma og verið þar sjálfri mér verst,“ segir hún og nefnir að í eina tíð hafi hún verið of stór, einstæð móðir og átti fleiri en einn barnsföður, öryrki og þá hafi hún upplifað kynferðisofbeldi sem hún opnaði opinberlega á þegar árið 1998. „Ég hef alveg um tíðina fundið fyrir fordómum og það hefur verið að nógu að taka, en það var líka ansi erfitt að upplifa að ég sjálf var bara með fullt af fordómum,“ segir hún
Að velja myndefni gagnvart fordómum hefði því verið hollt verkefni og fróðlegt, „en stundum alveg óskiljanlegt að enn séu fordómar gagnvart því sem mér þykir svo eðlilegt. Ég valdi staðalímyndir um algenga og sjáanlega fordóma en það eru ótal aðrir fordómar sem sjást ekki í þessari sýningu,“ segir Anna María.
Upplifði kærleika og hamingju
Mögulega hef ég framhaldssýningu um fordóma eða læri um eitthvað nýtt. Hver og einn á trúlega eftir að sjá mismunandi hluti út úr myndunum mínum, en á sýningunni er ég með bæði ljósmyndir og málverk. „Ég var svo heppin að fá að fara með vini mínum, sem er trans, í brjóstnáms aðgerð og fékk ég þann heiður að fá að mynda allt ferlið. Ég upplifði kærleika og hamingju við að fá að fylgja því ferli og hugmyndin að þessari sýningu þróaðist út frá þeirri upplifun,“ segir hún. „Þetta var mjög lærdómsríkt ferli fyrir mig og kenndi mér margt, m.a sitthvað um mína eigin fordóma.
Anna María Hjálmarsdóttir, Geðþáttafulltrúi með meiru, útskrifaðist úr Myndlistarskóla Akureyrar 2021. Þar áður var hún nemandi i Símey og tók hún námskeið hjá Erni Inga.
Þetta önnur sýningin sem hún heldur ein, en hefur margoft haldið sýningar með öðrum listamönnum. Hún er meðal annars meðlimur í "Gellur sem mála í bílskúr".
Sýningin opnar í dag, fimmtudaginn 14. september kl. 14 og verður opin eftir geðþáttaákvörðunum Önnu Maríu, til 26. september.