Sýning á Glerártorgi, gjafir til félagasamtaka og bók um sögu félagsins
Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni (FVSA) fagnar 90 ára afmæli sínu í ár en félagið var stofnað 2. nóvember 1930. Af því tilefni færði FVSA þrennum félagasamtökum veglegar gjafir í fyrir skemmstu, efnir til sögusýningar á Glerártorgi og gefur út bók um sögu félagsins 1930-2020.
Eiður Stefánsson, formaður FVSA og Anna María Elíasdóttir varaformaður færðu þrennum félagasamtökum á Akureyri veglegar gjafir fyrir hönd félagsins. Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og Kvennaathvarf Akureyrar hlutu hvert um sig eina milljón króna að gjöf frá félaginu. Við afhendinguna þökkuðu Eiður og Anna viðtakendunum fyrir frábært starf og óskuðu þeim alls velfarnaðar.
Sögusýning á Glerártorgi
Föstudaginn 30. október var formlega opnuð sýning í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi á Akureyri. Þar er varpað upp svipmyndum úr sögu félagsins í máli og myndum. Að auki eru ýmsir munir til sýnis sem yngri kynslóðir kunna að hafa heyrt um en aldrei séð með berum augum… Sýningin verður opin næstu fjórar vikur. Gestir eru hvattir til að taka þátt í spurningaleik sem tengist sýningunni og eru veglegir vinningar í boði.
„Sækjum við að settu marki“
Þessa dagana er verið að leggja síðustu hönd á bók sem hefur að geyma 90 ára sögu félagsins. Hún ber yfirskriftina „Sækjum við að settu marki“ en það er tilvísun í ljóð eftir Heiðrek Guðmundsson, skáld og kaupsýslumann, sem gegndi formennsku í félaginu um skamma hríð á liðinni öld. Jón Þ. Þór sagnfræðingur ritar söguna og Bragi V. Bergmann almannatengill ritar viðauka sem ber yfirskriftina „Stökk inn í stafræna öld“. Bókin verður öllum aðgengileg á vefsíðu félagsins, bæði í rafrænu formi og sem hljóðbók, innan fárra vikna.