„Sýndarmennskan er þó líklega hvergi eins ráðandi eins og í húsnæðismálum“
Sigmundur Davíð Gunnlausson, formaður Miðflokksins skaut föstum skotum á ríkisstjórnina í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Hann sagði ríkisfjármálin vera algerlega stjórnlaus undir „forystuleysi óstöðugleikaríkiststjórnarinnar“ og sagði að í málefnum hælisleitenda ríkti „hið fullkomna stjórnleysi.“
Segir ríkisútgjöld hafa aukist um 70%
„Frá árinu 2015 hafa ríkisútgjöld meira en tvöfaldast í krónum talið. Þessi eina ríkisstjórn hefur aukið útgjöldin um 70% og í rauntölum verðbólguleiðrétt um þriðjung. Þetta á ekki vera hægt, ein ríkisstjórn á ekki getað aukið útgjöld þetta mikið, hvað þá miðað við að þau hafi ekki til að sýna fyrir það engan afrakstur sem heitið getur. Jú, þau nefna að heilbrigðismálin séu dýr en hver er afraksturinn? Hafa biðlistarnir styrkst en kerfið betra? Það er ekki að sjá,“ sagði Sigmundur í ræðu sinni.
Endurvinnsla og sýndarmennska
Þá gaf Sigmundur ekki mikið fyrir aðgerðaráætlun gegn verðbólgu sem hann kallaði endurvinnslu mála sem hafa lengi legið fyrir. „Svo var bætt inn uppfyllingarefni eða skemmtiefni eftir því hvernig á það er litið, t.d. það að til standi að leggja aftur fram frumvarp um þjóðarsjóð. Nú væri gott að geta safnað sjóð en það vill bara svo til að þegar þessi ríkisstjórn lýkur sér af verður hún búin að reka ríkið með samanlögðum halla upp á yfir 1000 milljarða kr.“ sagði hann bætti við að næstu ríkisstjórnir þurfi að skila 50 milljarða afgangi í 30 ár til að borga niður hallarekstur núverandi ríkisstjórnar. „Með öðrum orðum, þessi aðgerðaáætlun eru auðvitað bara plat, hún er sýndarmennska.“
Sigmundur sakaði ríkisstjórnina ítrekað um sýndarmennsku. Hann spurði m.a. hvort einhver myndi eftir þjóðarhöllinni, eða kosningahöllinni eins og hann kallaði hana. Sagði ríki og borg hafa sameinast um að hafa sett á svið sýningu þegar áform um byggingu hallarinna var kynnt rétt fyrir borgarstjórnarkosningar. Ekkert hafi bólað á þessum áformum eftir að fjármálaáætlun kom fram.
Verðbólga í kynningum
Þá sagði hann sýndarmennskuna hvergi hafa verið meiri en í húsnæðismálum. Spurði hvað væri búið að halda margar kynningar um tugþúsundir nýrra íbúða. „Þar er auðvitað verðbólga eins og í öðru og þeim fjölgar alltaf og fjölgar nema í raunveruleikanum. Samkvæmt raunveruleikanum fækkar nýbyggingum íbúa um 69%.“
Þá sagði Sigmundur ríkið rugla saman útgjöldum og árangri í heilbrigðismálum eins og í mörgu öðru. Hann bendir á að enn sé verið að senda sjúklinga til útlanda þó að það sé miklu dýrara „það tekst ekki að laga kerfið hér eða er ekki vilji til þess og þau reyndar minna okkur á að Landspítalinn, nýr Landspítali, sé mjög dýr,“ sagði hann og bætti við að ef tekin hefði verið ákvörðun um að reisa nýjan, fullbúinn glæsilegan og hagkvæman spítala á nýjum stað, þá hefði allt gengið miklu betur.
Þá gagnrýndi hann ríkisstjórnina fyrir að hafa brugðist ungu fólki sem vildi sækja sér iðnmenntun en flytji þess í stað inn iðnaðarmenn því ekki séu til peningar til að mennta iðnaðarfólk hér á landi.
Stjórnleysi í málefnum hælisleitenda
Þá kom Sigmundur inn á það sem hann kallaði „fullkomið stjórnleysi sem ríki hér á sviði hælisleitenda“. Sagði hann tuttugu sinnum meiri aðsókn í að koma til Íslands sem hælisleitandi en til Danmerkur hlutfallslega.
„Viðbrögðin eru engin. Hvað sem líður stöku áhyggjuröddum innan stjórnarliðsins önnur en þau að ýta frekar undir þetta og jú bregðast við með því að leyfa notkun iðnaðarhúsnæðis og skrifstofuhúsnæðis undir flóttamenn, hælisleitendur, en það mun ekki duga til. Fyrir vikið er búið að kynna áform um að byggja flóttamannabúðir á Íslandi en eitthvað er það nú viðkvæmt þannig að við eigum að kalla þetta; hvað var það, skjólgarða, til að fela innihaldið. Svona er stjórnleysið ríkjandi alls staðar,“ sagði þingmaðurinn úr NA kjördæmi.
Kallar eftir breyttu stjórnarfari
Þá velti Sigmundur því fyrir sér hver framhaldið yrði í orkumálum og sagði það eina sem vitað væri að öll sú nýja orka sem kunni að verða til eigi að fara í orkuskipti. „Engin orka um fyrirsjáanlega framtíð í nýja verðmætasköpun, ný verkefni. Það má ekki einu sinni nefna olíu og gas betra að láta Sádi araba og Rússa sjá um það frekar en að byggja upp atvinnulíf á Norður- og Austurlandi og ríkisstjórnin nýbúin að samþykkja það að tuttugu manna nefnd í Brussel eigi að leggja línurnar um það hvað teljist góð fjárfesting á Íslandi og hvað ekki,“ sagði hann og lauk ræðu sinni á því að segja að hægt sé að gera miklu betur en til þess þurfi breytt stjórnarfar.