„Sýna gróskuna og tækifærin sem svo sannarlega eru til staðar hér á Norðurlandi“

Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims. Mynd/SSNE
Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims. Mynd/SSNE

Nýsköpunarhreyfingin Norðanátt stendur fyrir fjárfestahátíð á Siglufirði 31. mars næstkomandi þar sem fjárfestum og frumkvöðlum verður boðið upp á ógleymanlegan dag. Á hátíðinni kynna frumkvöðlar af Norðurlandi verkefni sín sem snerta orkuskipti, hringrásarhagkerfið eða fullnýtingu auðlinda í takt við áherslur Norðanáttar; matur, orka, vatn.

Norðanátt er öflugt samstarf aðila á Norðurlandi og vinnur hópurinn í anda nýrrar klasastefnu, þvert á stofnanir samfélagsins og hraðar framþróun og nýsköpun. Að verkefninu koma Eimur, SSNE, SSNV, Nýsköpun í norðri og Hraðið á Húsavík auk samstarfs við stuðningsfyrirtækið RATA. 

Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims segir í samtali við Vikublaðið að markmið samstarfsins sé að skapa vettvang á Norðurlandi með því að leiða saman frumkvöðla og fjárfesta. „Á hátíðinni fáum við vettvang til að sýna gróskuna og öll tækifærin sem svo sannarlega eru til staðar hér á Norðurlandi,“ segir hún.

Norðanátt stendur fyrir viðburðum sem styðja við frumkvöðla með hugmyndir á ólíkum stigum. Fyrsti viðburðurinn var lausnamótið Hacking Norðurland sem haldið var í apríl 2021. Því næst fór af stað viðskiptahraðallinn Vaxtarrými síðasta haust þar sem 8 teymi fengu stuðning til að vaxa í 8 vikur. „Nú er komið að stefnumóti á Siglufirði þar sem fjárfestar og frumkvöðlar koma saman og kynnast öflugri nýsköpun og fjárfestingartækifærum á svæðinu. Viðburðurinn er lokaður og eingöngu ætlaður fjárfestum sem horfa til landsbyggðarinnar sem ákjósanlegs fjárfestingakosts,“ segir Sesselja og bætir við að þetta sé í fyrsta sinn sem svona fjárfestahátíð er haldin á landsbyggðinni.

Lokahnykkur hringrásarinnar

„Nú erum við að enda hringrásina með þessari fjárfestahátíð. Hér erum við með aðila sem eru komin lengst með sínar hugmyndir, vita hvað þau eru að fara biðja um og  vantar bara fjármagnið,“ útskýrir Sesselja en hún var nýverið í Cannes í Frakklandi á stærstu fjárfestahátíð heims. „Þar vorum við að undirbúa þessa hátíð hér heima og vorum í raun að bjóða erlendum fjárfestum að vera með okkur á næsta ári. Í ár erum við með íslenska fjárfesta eingöngu en það eru komin mjög stór nöfn á blað.“

Alls 10 aðilar frá Norðurlandi munu kynna verkefni sín fyrir fjárfestum en þar er fjölbreytni í fyrirrúmi. Allt frá einstaklingum sem ætla að framleiða vetni, rafhlöðuframleiðsla, orkuskipti, Mýsköpun, Þörungaframleiðsla, hampframleiðsla, og ýmislegt fleira.

Þá hafa þrír ráðherrar boðað komu sína á hátíðina, þau Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir - ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar og Guðlaugur Þór Þórðarson - umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra. 

Dagskrá hátíðarinnar hefst klukkan 10 með ráðstefnu um nýtingu auðlinda og nýsköpunar. Eftir hádegishlé munu frumkvöðlarnir 10 kynna verkefni sín fyrir fjárfestum. Að því loknu hefst skipulögð afþreying þar sem boðið verður upp á skíði, yoga og fleira. Hátíðinni líkur svo með kokteilboði um kvöldið á Segli 67 Brugghúsi. 

Fréttin hefur verið uppfærð:

Áður var sagt að tveir ráðherrar hafi boðað komu sína á hátíðina en hið rétta er að þeir eru þrír og hefur Katrínu Jakobsdóttur verið bætt við til samræmis við það.

Nýjast