Svo læra börnin....

Hreiðar Eiriksson
Hreiðar Eiriksson

Það er ekki sjálfgefið að samfélagsumræða sem fram fer í kjölfar áfalla eða voðaverka leiði til farsællar niðurstöðu. Það getur verið erfitt að nálgast málefni af yfirvegun þegar hugurinn sveiflast milli sorgar, ótta og reiði. Og því miður sýnist mér að umræðan sem farin er af stað um vopnaburð barna eigi nokkuð í land með að verða þannig að líklegt sé að niðurstaða hennar verði farsæl.  Mér sýnist kveða við kunnuglegan tón harðari viðurlaga, öflugra eftirlits og inngripa í friðhelgi einkalífs barna eða mokstur á nöfnum barna inn á biðlista heilbrigðiskerfisins þar sem þau bíða árum saman eftir þjónustu sem ekki er til.

Börn og ungmenni eru að reyna að átta sig á samfélagi sem þau fæðast inn í en áttu engan hlut í að móta. Í þessu samfélagi fá þau misvísandi skilaboð úr mörgum áttum. Í skólanum læra þau að allir eigi rétt á mannvirðingu og réttlæti sama hver á í hlut og að einelti sé bannað. En svo sjá þau meira að segja kennara sína útskúfaða og hrakta úr störfum fyrir það eitt að hafa skoðanir og tjá þær.  Þau heyra að neteinelti sé ljótt en um leið sjá þau áhrifavalda og aðra vera lofsungna opinberlega fyrir að standa fyrir slaufunar- og óhróðursherferðum á netinu. Agndofa fylgjast þau með dómstóli götunnar velta hetjum þeirra af stalli án þess að nokkur tíma komi á daginn að þær hafi eitthvað til þess unnið. Hvenær er netníð og útskúfun dyggð? Hver getur verið öruggur þegar allir mega taka réttlætið í eigin hendur? Óöryggið grípur þau og hafandi árum saman heyrt í fjölmiðlum um aukið ofbeldi og nauðsyn þess til að mynda að lögreglan vopnist gera börnin eins og fyrir þeim er haft. Þau útvega sér vopn og bera þau sér og réttlætinu til varnar. Og í augnabliks tilfinningahita æskunnar úthellir þetta sverð réttlætisins síðan saklausu blóði og heimurinn verður aldrei samur. 

Ég tel að enn sé hægt að stíga til baka og endurreisa samfélag réttlætis, friðar og vopnleysis. Það verður hins ekki gert með þeim verkfærum sem komu samfélaginu í þessa stöðu. Ég efast um að viðurlög, valdbeiting og enn meira afnám borgaralegra réttinda skili okkur árangri. Við þurfum að hafa kjark til að leggja þessi úreltu verkfæri frá okkur, endurreisa virðingu réttarkerfisins, efla réttarvitund almennings og stuðla að skilvirku og heiðarlegu samtali þar sem sérhver rödd fær að hljóma ótrufluð. Samtal við börnin og samtal okkar á milli mun skila árangri.  í samtalinu býr styrkur hins frjálslynda lýðræðissamfélags sem við sköpuðum á 20. öldinni og ber skylda til að varðveita. Lausnin er ekki ein og ekkert eitt okkar veit hver hún er. Sannarlega ekki ég sjálfur. En sameiginlega getum við fundið og farið leiðina til baka.

Um það er ég sannfærður.

 


Athugasemdir

Nýjast