Fishrotmálið og Samherji. Hvað dvelur orminn langa?

Hreiðar Eiríksson lögmaður skrifar
Hreiðar Eiríksson lögmaður skrifar

Þegar ég var ungur var þessarar spurningar um orminn langa oft spurt þegar einhver hafði reynt að telja öðrum trú um að einhvers væri að vænta sem aðrir töldu ósennilegt eða fráleitt. Hún fellur sérlega vel að umfjöllunarefni þessarar greinar.

Dómsúrskurður í Namibíu.

Á dögunum rakst ég á stutta frétt sem lét ekki mikið yfir sér og hefur ekki fengið mikla umfjöllun hér á landi. Þar var sagt frá því að Landsréttur Namibíu hefði hafnað kröfu saksóknara þar í landi um kyrrsetningu eigna sex dótturfélaga Samherja í landinu. Úrskurðurinn grundvallaðist á því að saksóknara hafði ekki tekist að sýna fram á að líklegt væri að nokkur yrði ákærður í málinu, þrátt fyrir að fimm ár væru frá því að rannsóknin hefði byrjað. Í fréttinni kemur fram að dómari hafi átalið harðlega hve langan tíma rannsóknin hefði tekið.

Ef úrskurðurinn er lesinn þá sést að dómarinn kemst meðal annars svo að orði í lauslegri þýðingu yfir á íslensku, að staðhæfingar saksóknara um að embætti hans sé enn að reyna að afla upplýsinga um hvar hinir erlendu einstaklingar sem rannsókn hans er sögð beinast að séu niðurkomnir, hafi á sér mikinn ólíkindablæ þar sem embættið hafi engan reka gert að því að reyna að afla upplýsinga um þetta í gegnum Interpol þó legið hafi fyrir frá árinu 2020 að einstaklingarnir væru ekki í Namibíu. Þá hafi enn ekki verið reynt að frá þá framselda frá heimalandi þeirra. Dómari kemst síðan þannig að orði að sú skýring saksóknara að tafirnar stafi af sameiningu tveggja sakamálarannsókna árið 2021 skilji eftir óbragð í munni ("bitter taste"). Ekki verði heldur séð að nokkur grundvöllur sé fyrir því sakarefni sem bætt var við og varðaði ætluð brot gegn lögum um virðisaukaskatt. Sjaldgæft er að svona sterkt sé að orði kveðið í úrlausnum dómstóla. Á grundvelli þessara staðreynda og fjölda efasemda um grundvöll málsins komst dómarinn að þeirri niðurstöðu að saksóknara hefði ekki tekist að gera það sennilegt að gefnar yrðu út ákærur á hendur hinu erlendu einstaklingum. Þegar af þeirri ástæðu var kröfu um kyrrsetningu hafnað og saksóknari úrskurðaður til að greiða málskostnað dótturfélaganna sex.

Namibískur fjölmiðlar á borði við The Namibian hafa birt greinar um dómsúrskurðinn. Þeir íslensku fjölmiðlar sem mest hafa fjallað um Fishrot-málið og gefið því nafnið Samherjamálið virðist á hinn bóginn ekki hafa talið dómsúrskurðinn hafa fréttagildi.

Íslenska rannsóknin.

Hið namibíska Fishrotmál varðar rannsókn á grun um að embættis- og stjórnmálamenn þar í landi hafi misfarið með opinbert fé og notað aðstoðu sína til að efnast ólöglega. Samhliða henni hófst önnur sakamálarannsókn sem beint var að Samherja, forstjóra fyrirtæksins og nokkrum starfsmönnum þess. Upphaf hennar var nokkuð sérstakt en það hófst með því að einstaklingur sem augljóslega ber þungan hug til Samherja játaði á sig mútubrot í Namibíu og gerði tilraun til að tengja fyrirtækið og stjórnendur þess við brotin. Fjölmiðlamenn sem áður höfðu staðið fyrir tilhæfulausum ásökunum í garð fyrirtækisins tóku málið upp. Leiddi það til sakamálarannsóknar og hafa margir talið sig finna af henni sterkan pólitískan þef. Í ræðustól Alþingis kröfðust einstaka þingmenn þess að eignir Samherja yrðu frystar eða að fyrirtækinu yrði skipt upp með valdboði. Stjórnvöld lýstu því sérstaklega yfir að fjárskortur mundi ekki standa í vegi fyrir þessari sakamálarannsókn. Slíkt er að mínu viti einstakt og þekki ég ekki önnur dæmi um að slíku hafi verið lýst yfir vegna sakamálarannsókna gegn öðrum einstaklingum eða fyrirtækjum.

Af og til hefur þjóðin fengið fréttir af þessari rannsókn. Oftast eru fréttirnar um árangurslausar tilraunir einstaklinganna sem fengið hafa stöðu sakbornings til að losna frá þeirri stöðu eða til að fá tækifæri til að verja sig. Enginn endir virðist ætla að vera á rannsókninni og eftir fimm ár, fordæmalausan aðgang að rafrænum gögnum sem stolið var úr tölvukerfum Samherja, óheftan aðgang að öllum rannsóknargögnum namibíska málsins og íslenskar yfirheyrslur yfir hinum namibísku sakborningum, hefur enn engin ákæra verið gefin út. Ekki eitt einasta sakarefni hefur litið dagsins ljós.

Engin leið að hætta?

Það segir sig sjálft að sakamálarannsóknir eru nauðsynlegar þegar grunur vaknar um að einhver eða einhverjir hafi framið refsiverð brot. Sömuleiðis það að staðreyndir mála liggja ekki fyrir á því stigi. Þess vegna gæti það komi fyrir hvert og eitt okkar að vera ásakað fyrir verknað sem lögregla þyrfti að rannsaka. Öll gætum við hvenær sem er fengið réttarstöðu sakbornings. Þetta verðum við að þola.

Í fimm ár hefur fjöldi manns starfað við að rannsaka metfjölda gagna sakamáls á Íslandi í því skyni að finna þar eitthvað sökótt á nokkra íslenska einstaklinga. Í þetta hefur verið varið ómældum fjármunum. Stjórnmálamenn hafa heitið því að gáttir fjárhirslna ríkisins standi galopnar svo skattfé borgaranna renni greiðlega til þeirra sem fara með rannsóknina. Þrátt fyrir að engu hafi verið sparað til tilrauna til að finna refsiverð brot hefur ekki einu sinni tekist að ákæra þann eina fyrrverandi starfsmann Samherja sem hefur margsinnis játað á sig mútubrot hjá lögreglu og í fjölmiðlum.

Öll verðum við að þola að ásakanir á hendur okkur séu teknar til rannsóknar. En við eigum fortakslausan rétt á réttlátri og hlutlausri rannsókn, rétt á að fá tækifæri til að verja okkur og rétt á því málinu verði komið innan hæfilegs tíma til sjálfstæðra og óvillhallra dómstóla. Um þetta eru skýr ákvæði í íslensku stjórnarskránni og í Mannréttindasáttmála Evrópu. Enginn maður á að þurfa að þola að sitja árum saman á sakamannabekk án þess að niðurstaða fáist um málið eða að niðurstaða sé yfirhöfuð í sjónmáli. Lögreglu ber að upplýsa málið og ákæruvaldinu ber að koma því fyrir dómstóla ef ástæða þykir til eða fella það niður annars.

Sporin hræða.

Við hljótum að spyrja okkur hvað liggur að baki. Eru menn ef til vill í þrákelkni í veiðiferðum um rafræna gagnabanka í von um að finna eitthvað sem hægt er að setja saman með þeim hætti að það líti þannig út að mútubrotin sem einn maður hefur játað á sig tengist stjórnendum Samherja? Er verið að reyna að búa til mál úr gögnum sem í raun sýna ekki brot? Þetta er í það minnsta orðið óþægilega líkt hinu alræmda gjaldeyriseftirlitsmáli Seðlabanka Íslands sem lesa má um í bók Björns Jóns Bragasonar, lögfræðings og sagnfræðings, Seðlabankinn gegn Samherja, sem kom út snemma árs 2024. Þar segir frá því hvernig menn héldu áfram að bera Samherja, Þorstein Má Baldvinsson og fleiri eintaklinga röngum sökum og kæra þá til lögreglu þrátt fyrir að gögn hefði sýnt með óyggjandi hætti að ekkert brot hafði verið framið. Fólkinu var komið í stöðu sakborninga gegn betri vitund og allt frá upphafi og fram á síðustu ár hafa verið að koma fram gögn um réttarbrot gegn fyrirtækinu og þessu fólki. Ómældur og óbætanlegur skaði var unninn á æru nafngreindra einstakling og það sem verra er, á líkamlegri og andlegri heilsu saklauss fólk.

Hver er tilgangurinn?

Við okkur blasir sú staðreynd að fyrirtækið Samherji, Þorsteinn Már Baldvinsson og fjöldi annarra einstaklinga sem ekkert hafa til saka unnið hafa sætt sakamálarannsóknum eða öðrum sambærilegum rannsóknum af hálfu eftirlitsstofnana nær samfellt í allt að einn og hálfan áratug. Þrátt fyrir fordæmalausan aðgang að rafrænum og sýnilegum gögnum hefur eftirlitsstjórnvöldum, lögreglu og ákæruvaldi ekki tekist að sýna fram á að þetta fólk hafi svo mikið sem gleymt að gefa stefnuljós áður en það breytti um akstursstefnu á gatnamótum.

Heil kynslóð Íslendinga hefur vaxið upp við linnulausa umræðu um eitthvað sem kallað er Samherjamál og að fyrirtækið, stjórnendur þess og starfsmenn stundi kerfisbundin afbrot af einhverju tagi. Íslenskir fjölmiðlar hafa margsinnis birt myndir af þessu fólki í tengslum við ásakanir um refsiverð brot og vísbendingar eru um þátttöku fréttamanna í stuldi á viðkvæmum persónulegum rafrænum upplysingum um fólkið. Þegar ein tilraun til að sanna refsiverða háttsemi reynist þvert á móti sanna sakleysi fólksins spretta upp nýjar ásakanir, ný rannsókn byrjar og áfram heldur Samherjamálið. Stjórnendunum er haldið áfram á sakamannabekknum og fá eftir atvikum nýja sessunauta úr hópi starfsmanna fyrirtækisins. Ekkert lát virðist vera á þessu og sífellt er haldið áfram þótt ekkert bóli á ákærum eða sakarefnum. Ára og áratuga sakamálarannsóknir sem beint er að sama fólkinu hafa ekki leitt til einnar ákæru, hvað þá sakfellingar. Efast má um að nokkuð íslenskt fyrirtæki eða nokkrir Íslendingar hafi verið rannsakaðir jafn rækilega. Ef til vill er niðurstaða allra þessara mála sú að slá má því föstu að stjórnendur og starfsfólk Samherja séu einhverjir saklausustu Íslendingar sem sögur fara af.

Í síðustu viku heyrði ég tvo einstaklinga sem teljast til málsmetandi manna vísa til Samherjamálsins í dæmaskyni. Annar gekk reyndar svo langt að vísa til "mútugreiðslna Samherja" líkt og um staðreynd væri að ræða. Hvorugur virtist gera sér grein fyrir því að í raun er ekkert Samherjamál til. Í þessum ummælum mannanna birtist ljóslifandi sá skaði sem unnin hefur verið með hinum langvarandi og linnulausu rannsóknum gegn fyrirtækinu. Þrátt fyrir að engin brot hafi verið upplýst ganga jafnvel hinir mætustu menn nú út frá sekt fyrirtækisins og starfsmannanna sem gefinni. Er hinn raunverulegi tilgangur allra þessara rannsókn ef til vill sá að skrifa Samherja og stjórnendur hans í sögubækurnar sem glæpamenn þrátt fyrir liggi að engir glæpir hafi verið framdir?

Hvernig sem málum kann að vera háttað þá hljótum við Íslendingar að vera sammála um að þeir sem rannsaka grun um refsiverða háttsemi ljúki rannsóknum, komi málum fyrir dómstóla innan hæfilegs tíma en felli málin ella niður. Að öðrum kosti getur Ísland ekki talist réttarríki.

Nýjast