Miðaldra í Mílanó
Æskuvinkonur
Ég er svo heppin að eiga frábærar æskuvinkonur. Saman höfum við gengið í gegnum súrt og sætt. Ég á líka vinkonur frá öðrum tímabilum úr lífinu, bæði úr námi, leik eða störfum. Það er einnig mikilvæg vinátta en byggð á öðrum grunni.
Æskuvinir þekkja bakgrunn okkar, stórfjölskylduna, við gengum í sama skóla, eigum sömu skólafélagana. Hjá okkur var margt líkt í æsku, en einnig margt ólíkt. Stundum skiljast leiðir um tíma og þá teygist á vináttunni. Við förum í misjafnar áttir, í mismunandi skóla, í nám eða starf erlendis.
Samskipti á rauntíma
Nú höldum við sambandi í rauntíma, með myndsímtölum eða skilaboðum. Áður voru það sendibréfin sem glöddu. Ég á enn bréf frá því að ég bjó í Svíþjóð þegar ég var 9-10 ára sem og frá Þýskalandi þegar ég var 20 ára, og það sem er gaman að lesa þessa bréf í dag.
Hlutverkin
Það sem einkennir æskuvinina er að okkur hættir til að fara í sömu hlutverk og við vorum í þegar við vorum krakkar. Þetta kemur berlega í ljós í bekkjarhittingum, þeir sem voru hlédrægir í skóla eru enn rólegir og þeir sem voru eins og Ingjaldsfíflið fara aftur í það hlutverk. Hlutverkin eru á sínum stað þótt fólk hafi þroskast. Ingjaldsfíflin orðin gáfumenni og þeir hlédrægu hálf athyglissjúkir, eðlilega þar sem þeir fengu enga athygli í æsku.
Miðaldra í Mílanó
Við fórum nokkrar æskuvinkonur til Mílanó um daginn. Strax fórum við óafvitandi í okkar hlutverk. Sú skipulagða spurði ítrekað hvort allar væru með vegabréf – við erum samt alveg nokkuð í lagi í kollinum, komnar ágætlega yfir 50 árin, búnar að eiga nokkur börn og eru þau öll á lífi. Ein okkar hafði meiri áhuga á mat en við hinar – allar höfðum við þó áhuga á víni, þó hóflegan áhuga auðvitað. Ein skipulagði allt, pantaði veitingahús og var með greiðsluskiptingu á hreinu. Ein fékk alltaf reikninginn. Ein lét alltaf bíða eftir sér. Ein lenti alltaf í daðri frá þjónum, sem gerði okkur hinar abbó, eðlilega, við erum jú síð-miðaldra.

Svolítið miðaldra í Mílano
Saklaus hrekkur á Duomo torgi
Talandi um hlutverk. Ég hef stundum verið orðuð við prakkarastrik, held að það sé að ósekju. Á miðju Duomo torgi labbaði ég fyrir aftan vinkonu mínu og gramsaði hressilega í handtösku hennar, rétt eins og ég væri afar lélegur þjófur. Vildi þá ekki betur til en að hún hélt, eðlilega, að það væri verið að ræna hana. Koma þá frá henni sömu viðbrögð og í æsku, sem ég vanmat. Hún byrjar að orga. Þá meina ég há-orga á miðju aðaltorginu í Mílanó, sem var sneisafullt af ferðamönnum og lögreglu. Hún snýr sér við, tilbúin að lemja mig. Ég reyndi að róa hana niður, en hún hélt samt áfram að orga á mig. Ég er ekki viss hvor okkar varð hræddari, hún við mig eða ég við lögregluna á svæðinu. Mér leið eins og hún hafi orgað í 15 mínútur en það voru trúlega ekki meira en 15 sekúndur. En á þeim tíma gerðu 2 vígalegir asískir ferðamenn sig líklega til að snúa mig niður. Ég horfði auk þess skelfingu lostin á nokkra vígalega lögregluþjóna, sá fyrir mér dapurlega einangrunarvist í ítölsku fangelsi.
Er ekki kominn tími til að hætta að vera prakkari?
Ég slapp með skrekkinn. Ég var hvorki lamin af vinkonunni, snúin niður af ferðamönnum né handtekin af ítölsku lögreglunni. Kannski mun ég bara fara úr hlutverki prakkarans og snúa mér að því að verða virðuleg og prúð síð-miðaldra kona. Ætli ég yrði þá loks skemmtileg?