Togarajaxlar á ferðinni í Hull og Grimsby

Gústaf Baldvinsson hjá Seagold söluskrifstofu Samherja í Bretlandi kynnti gestunum starfsemina      …
Gústaf Baldvinsson hjá Seagold söluskrifstofu Samherja í Bretlandi kynnti gestunum starfsemina Myndir Sigfús Ólafur

„Ferðin var frá upphafi til enda algjörlega frábær,“ segir Sigfús Ólafur Helgason sem ásamt fleiri gömlum togarajöxlum af ÚA- togurum fór í pílagrímsferð til Hull og Grimsby . „Við sem lögðum upp í þessa pílagrímsför erum alveg í sjöunda himni.“

Hópurinn flaug með beinu flugi frá Akureyrarflugvelli til Manchester og ók þaðan yfir á Humbersvæðið en þangað sigldu íslenskir sjómenn gjarnan á árum áður. Það var því margt að sjá og skoða og rifja upp.

„Það var sama hvar við komum, móttökurnar sem við fengum hvarvetna voru með ólíkindum. Það var enginn að hugleiða þorskastríð, gamlir sjómenn sem við ræddum við sögðust skilja það mætavel að við hefðum verið að verja okkar fiskimið og hagsmuni og bera ekki kala til Íslendinga,“ segir Sigfús.

Gætum gert betur

Það vakti athygli hversu mikla virðingu og væntumþykju Bretarnir sýna sögu sjómann sinna. „Það var tilkomumikil stund þegar við stóðum við minnismerkin við Sjómannasafnið í Hull, en þar eru rituð nöfn allra sjómanna sem farist hafa á hafi. Mér varð hugsað heim og hvað við Íslendingar gætum gert margt miklu betur í þessum efnum. Hér við land hafa farist hundruðir manna við sjósókn hér við land sem við gætum vel minnst betur. Sú saga sem varðveitt er á Sjóminjasöfnum í Hull og Grimsby er ómetanleg,“ segir hann.

Sigfús kveðst vonast til að eitt af því sem af ferðinni leiði verði að koma upp sjóminjasafni á í þeim mikla útgerðarbæ sem Akureyri er og hefði verið um langa hríð. „Við hefðum þurft að hafa ráðamenn bæjarins með í ferðinni til að þeir hefðu upplifað þessar virðingu og væntumþykju sem Bretar sýna sjómönnum. Boltinn er hjá þeim núna, við erum örugglega tilbúnir að vinna að þessu máli.“

Það var tilkomumikil stund þegar ekið var um hafnarsvæðið í Grimsby eftir móttöku hjá hafnaryfirvöldum þar, en fyrrum iðaði Humbersvæðið af lífi. Þegar mest var voru gerðir þaðan út um 700 síðutogarar og á hverjum degi lönduðu allt að 20 togarar á fiskmarkaðnum.

Góðar móttökur hjá Seagold

Hópurinn fór í heimsókn í höfuðstöðvar Seagold, söluskrifstofu Samherja í Bretlandi, skemmt utan við Hull og fékk höfðinglegar móttökur. Gústaf Baldvinsson framkvæmdastjóri þar kynnti starfsemina sem er umfangsmikil. Öllum hópnum var boðið í kvöldverð og að sjálfsögðu boðið upp á fisk og franskar. „Þetta var alveg frábært kvöld,“ segir Sigfús.

Næst var farið í léttan hádegisverð hjá borgarstjóranum í Hull sem kynnti metnaðarfullar hugmyndir um að byggja gömlu hafnirnar í borginni upp. Þar verða söguminjar frá tímum fiskmarkaðanna í öndvegi.

Fékk áritaða Sögu Akureyrar í afmælisgjöf

Sigfús segir heimsókn til feðganna Baldvins Gíslason og Hlyns sonar hana hafa verið eftirminnilega en þeir tóku þátt í skipulagningu ferðarinnar. Fórst þeim það vel úr hendi og verður að hans sögn lengi í minnum höfð sú einstaka þjónustulund sem þeir sýndu hópnum. Við heimkomu lýsti Baldvin í kveðju hópnum sem algjörri úrvalsáhöfn sem hver skipstjóri gæti verið stoltur af. Baldvin átti 82 ára afmæli meðan hópurinn staldraði við og afhentu sjómenn honum öll 5 bindin af Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason, áritaðar af honum og Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra. Auk feðganna sá Verdi Travel um skipulagningu.

Kvikmyndagerðarmaður var með í för og má gera ráð fyrir að í fyllingu tímans verði til heimildamynd um ferðina en einnig voru tekin viðtöl við eldri breska sjómenn sem tóku þátt í veiðum á Íslandsmiðum forðum.

„Þetta tókst allt svo vel að nú erum við farin að huga að heimsókn til Þýskaland á næsta ári þar sem við ætlum að heimsækja borgirnar Bremerhaven og Cuxhaven,“ segir Sigfús.

Viðtal tekið við sýningastjóra síðutogarans Ross Tiger í Grimsby

Það var hjartnæm stund fyrir sjómenn að standa við minningarskjöld um sjómenn sem hafa farist. Alls eru fjórir svipaðir skildir við sjóminjasafnið í Hull

Frá vinstri eru Jerry Thomson safnstjóri Sjóminjasafnsins í Hull, Hlynur Baldvinsson, Sigfús Helgason og Baldvin Gíslason

Baldvin Gíslason okkar albesti maður varð 82 ára þann 28. Mars. Sjómenn sungu honum kraftmikinn afmælissöng og afhentu Sögu Akureyrar áritaðar af Jóni Hjaltasyni höfundi sem og Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra á Akureyri

Hópurinn fyrir utan Sjóminjasafnið í Hull

Á sjóminjasafninu í Hull frá vinstri eru Óðinn Traustason, Þorsteinn Vilhelmsson. Davíð Hauksson og Sigursteinn Kristinsson að virða fyrir sér eitt líkanið

Leikmynd í sjóminjasafninu í Grimsby

Nýjast