Jóna atkvæði og ambögur kemur út í sumar

Jón Ingvar Jónsson
Jón Ingvar Jónsson

Jóna, atkvæði og ambögur er heiti á bók með vísum og ljóðum Jóns Ingvars Jónssonar sem út kemur hjá Bókaútgáfunni Hólum í sumar.

Jón Ingvar Jónsson fæddist á Akureyri árið 1957 og ólst þar upp en lést langt fyrir aldur fram árið 2022. Vorið 1977 lauk hann stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri en hélt þá til náms í Austur-Þýskalandi. Jón Ingvar starfaði um skeið sem forritari en lengst af og sér í lagi hin síðari ár starfaði hann við sitt helsta áhugamál, leiðsögn.

Jón Ingvar

Snemma fékk Jón Ingvar mikinn áhuga á bragfræði, náði strax á menntaskólaárunum góðum tökum á þeirri list og síðar varð hann einn af þekktustu og bestu hagyrðingum landsins. Jón Ingvar var einkar glöggur maður og fróðleiksþyrstur og kunnur fyrir skemmtilegheit, spaugsemi og galgopahátt. Hann lék sér alla tíð með orð, var hnyttinn og hafði gaman af að fara hárfínt yfir strikið. Vísur eftir hann birtust í ýmsum vísnaþáttum í blöðum og tímaritum og á vettvangi veraldarvefsins.

Umsjón og ritstjórn er í höndum Símonar Jóns Jóhannssonar.

Aftast í bókinni verður minningarsíða og þar geta þeir áskrifendur, sem vilja minnast Jóns Ingvars, fengið nafnið sitt skráð. Verð bókarinnar, sendingargjald innifalið, verður kr. 7.990- og innheimtist fyrirfram. Hægt er að panta bókina í netfanginu: holar@holabok.is

Í MA kom Jón einhverju sinni of seint í íþróttatíma og þegar hann opnaði dyrnar inn í leikfimissalinn voru bekkjarfélagar hans að gera einhverjar æfingar á gólfinu og við honum blöstu tuttugu og fimm afturendar. Þá varð honum að orði:

Reigja búkar háls og hupp,

hefst þá sjúka atið.

Brosi ljúka allir upp

út um kúkagatið.

Nýjast