13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Svæfingar í þingsal
Ég hef oft heyrt fólk fárast yfir því að Alþingi sé óskilvirkt. Þar sé hver höndin upp á móti annarri og að minnihluti Alþingis, þ.e. stjórnarandstaðan, sé máttlaus og komi fáum málum í gegn. Vitiði, það er einfaldlega hárrétt að mörgu leyti.
Á 146. löggjafarþingi á árunum 2016-17 (sem undirritaður sat á sínum tíma) lögðu þingmenn stjórnarandstöðunnar fram 43 lagafrumvörp. Einungis eitt þessara frumvarpa var afgreitt sem lög frá Alþingi - og það var reyndar eina frumvarpið sem komst yfirleitt til lokaatkvæðagreiðslu í þingsal. Með öðrum orðum: 97,7% allra frumvarpa sem þingmenn stjórnarandstöðunnar mæltu fyrir voru „svæfð“ í nefnd, þ.e. voru stöðvuð einhvers staðar á leiðinni.
Það er áhugavert að 24 frumvörp af þeim 42 sem voru svæfð voru ekki ný af nálinni heldur höfðu þau verið lögð fram áður, sum hver allt að fimmtán sinnum. Alltaf voru þau svæfð svefninum langa. Þetta er auðvitað ekkert annað en óþolandi yfirgangur af hálfu stjórnarmeirihluta Alþingis og bjögun á lýðræðinu.
Aftur og aftur
Eins og málum er háttað núna falla lagafrumvörp niður við lok hvers löggjafarþings, að vori og um jól. Það leiðir til þess að þingmenn verða að leggja frumvörp sín fram á nýjan leik, aftur og aftur, svo þau falli ekki í gleymskunnar dá. Þetta er vont fyrirkomulag, enda gefur það formönnum nefnda og meirihluta nefnda Alþingis færi á að stöðva öll frumvörp sem þeim líst illa á og koma þar með í veg fyrir að þau fái eðlilega þinglega meðferð og komi til atkvæðagreiðslu í þingsal.
Þetta leiðir til þess að umsagnaraðilar þurfa að senda umsagnir um sömu þingmálin hvað eftir annað, sömu gestirnir mæta á fundi fastanefnda Alþingis til að ræða sömu þingmálin aftur og aftur, svara sömu spurningum frá sömu þingmönnum aftur og aftur. Alltaf skal byrjað frá grunni.
Það má líka benda á að þetta virðist hafa verið viðurkennt vinnulag Alþingis alla tíð. Það er alveg sama hvað flokkar mynda meirihluta, alltaf skal þessi aðferð viðhöfð. „Það er gott að geta svæft demonísk mál í nefnd,“ var einu sinni sagt við mig þegar ég sat á Alþingi. Þetta er sorglegt viðhorf en mjög einkennandi fyrir það hvernig kaupin gerast á eyrinni.
Einfalt Píratamál lagar þetta
Þó ofangreindar tölur eigi einungis við um eitt tiltekið löggjafarþing, sem hófst reyndar óvenju seint, má fullyrða að sambærilegar tölur eigi við um flest önnur löggjafarþing, bæði fyrr og síðar. Þingmál minnihlutans mæta alltaf afgangi og komast einna helst að þegar samningar um þinglok um jól og að vori fara fram.
Þessu má breyta, þessu ætti auðvitað að breyta. Það hlýtur að vera í hæsta máta óeðlilegt að stjórnarmeirhluti, sem oftar en ekki er mjög naumur, neiti næstum því öllum málum, sem frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar koma, um þá þinglegu meðferð sem kveðið er á um í stjórnarskrá og lögum um þingsköp Alþingis.
Píratar hafa í þrígang lagt fram lagafrumvarp sem ætlað er að bæta úr þessu, þ.e. að mál falli ekki niður að loknu hverju löggjafarþingi, eins og nú er, heldur einungis í lok hvers kjörtímabils. Auk þess er gerð sú krafa að þingnefndir skili af sér nefndaráliti um öll frumvörp, þannig að hægt verði að taka þau til áframhaldandi umfjöllunar og lokaatkvæðagreiðslu í þingsal. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að þetta frumvarp okkar Pírata hefur alltaf verið svæft svefninum langa.
-Höfundur er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi við Alþingiskosningarnar þann 25. september nk.