Sumarljós á Akureyri

Ragnar Hólm.
Ragnar Hólm.

Laugardaginn 11. maí kl. 14:00 opnar Ragnar Hólm Ragnarsson myndlistarsýninguna „Sumarljós“ í Mjólkurbúðinni á Akureyri. Á sýningunni gefur að líta nýjar vatnslitamyndir sem birta okkur ljós og skugga í íslensku landslagi. Sýningin verður opin helgina 11.-12. maí frá kl. 14-17 og aftur helgina 18.-19. maí. Einnig eftir samkomulagi frá 11.-19. maí.

Ragnar Hólm er nýkominn heim frá Fabriano á Ítalíu þar sem hann á mynd af Herðubreið á einni stærstu vatnslitahátíð heims. Á Ítalíu sótti hann námskeið hjá Raffaele Ciccaleni en áður hefur Ragnar numið af vatnslitamálurum á borð við Björn Bernström og Klaus Hinkel, að ógleymdum Guðmundi Ármann Sigurjónssyni.

„Það er mjög gagnlegt að sækja námskeið á ferðalögum um heiminn því maður lærir alltaf eitthvað nýtt, mismikið en þó alltaf eitthvað. Ciccaleni er flottur karl sem hefur kennt málun í tugi ára en er nú sestur í helgan stein,“ segir Ragnar um námskeiðið í Fabriano.

Sumarið 2019 á Ragnar Hólm myndir á sýningum í Úkraínu, Eistlandi, Finnlandi, Wales og Ítalíu. Hann hefur tvisvar verið valinn til að sýna mynd í Fabriano og tvisvar hefur hann átt myndir á alþjóðlegum sýningum European Confederation of Watercolour Societies, í Frakklandi 2016 og Finnlandi 2019. „Sumarljós“ er 16. einkasýning Ragnars en hann hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis.

Við opnun laugardaginn 11. maí leika Pálmi Gunnarsson, nýr bæjarlistamaður Akureyrar, Einar Scheving og Phil Doyle af fingrum fram á hljóðfæri sín.

Nýjast