Styrkja uppbyggingu á færni- og hermikennslu við HA

Við undirritun samningsins í dag. Mynd/Stjórnarráðið.
Við undirritun samningsins í dag. Mynd/Stjórnarráðið.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, undirrituðu í dag samning um styrk til uppbyggingar færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík í samstarfi við Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri. Hermikennsla sem þessi felst í að herma með tæknibúnaði eða leiknum sjúklingum eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi með leiðbeinanda. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins

Innviðauppbygging í heilbrigðis- og menntakerfinu

,,Við verðum að fjölga nemendum í heilbrigðisvísindum á Íslandi. Ein helsta hindrunin í okkar kerfi hefur verið klíníska námið, starfsnámið á sjúkrahúsunum, vegna þess að sjúkrahúsin hafa hvorki aðstöðu né mannskap til að taka á móti fleiri nemendum í heilbrigðisvísindum,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. ,,Það er því frábært að þrír háskólar sameinist, í samvinnu við Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri, um að setja færni- og hermisetur á laggirnar sem er nútímaleg lausn notuð víða um heim til að fjölga nemendum í fjölbreyttum greinum heilbrigðisvísindanna.”

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, tekur í sama streng. ,,Uppbygging hermisetra og færnibúða er nauðsynlegur hluti innviðauppbyggingar í bæði heilbrigðis- og menntakerfinu. Í takt við forgangsaðgerðir ráðuneytanna um mönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks mun þetta gjörbylta aðstöðu til kennslu, náms og þjálfunar á öllum stigum. Þessi samningur er mikið gleðiefni og sýnir hversu mikilvæg samvinna er, milli ráðuneyta og stofnana, til að ná fram áþreifanlegum umbótum í heilbrigðiskerfinu.”

Bætt samkeppnishæfni náms í heilbrigðisvísindum

Markmið samningsins er að efla menntun í heilbrigðistengdum greinum, stuðla að fjölgun heilbrigðisstarfsfólks og auka samstarf íslenskra háskóla og kennslusjúkrahúsa. Þannig er hægt að bæta samkeppnishæfni þeirra í heilbrigðisvísindum auk þess að efla gæði náms, rannsókna og stoðþjónustu. Markmið samstarfsverkefnisins er í meginatriðum fimmþætt:

  1. Þróun og samþætting þekkingar á sviði færni- og hermikennslu þeirra háskóla og sjúkrahúsa sem sjá um kennslu í heilbrigðisvísindum.
  2. Stuðlað að árangursríkri miðlun þekkingar með nýstárlegum og skilvirkum kennsluaðferðum.
  3. Fjölgun hermileiðbeinenda innan háskólanna og samstarfsstofnana og efling símenntunar reyndra kennara í hermikennslu.
  4. Undirbúningur til stóreflingar aðstöðu og tækjabúnaðar til færni- og hermikennslu á Akureyri og í Reykjavík. Mikilvægt er að á báðum stöðum sé til staðar grunnbúnaður fyrir færni- og hermikennslu helstu heilbrigðisstétta, en þar að auki sérhæfðari búnaður í Reykjavík fyrir sértækari kennslu og þjálfun.
  5. Aukning þverfaglegrar samvinnu á sviði heilbrigðisvísinda og stuðningur við kennslu- og rannsóknasamstarf milli þeirra stofnana sem að verkefninu koma.

Verkefnið er eitt af samstarfsverkefnum háskóla sem styrkt er af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og fellur undir forgangsaðgerðir í þágu heilbrigðismenntunar sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og heilbrigðisráðherra lögðu sameiginlega fram til að mæta aukinni mannaflaþörf í heilbrigðiskerfinu og efla heilbrigðismenntun. Af þeim 25 verkefnum sem styrkt eru í Samstarfi háskóla hlýtur uppbygging færni- og hermisetra stærstu einstöku úthlutunina, alls 165 m.kr. Heilbrigðisráðuneytið veitir sömu upphæð til verkefnisins á samningstímanum og er heildarupphæð samningsins því 330 m.kr.

Nýjast