Tvær nýjar námsleiðir á meistarastigi við hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri næsta haust.
Næsta haust verður boðið upp á tvær nýjar námsleiðir á meistarastigi við hjúkrunarfræðideild skólans. Leiðirnar sem um ræðir eru hjúkrun einstaklinga með hjartasjúkdóma og hjúkrun einstaklinga með sykursýki og hefur slíkt sérhæft meistaranám fyrir hjúkrunarfræðinga ekki verið áður á Íslandi.
Vaxandi þörf er fyrir sérhæfða hjúkrunarfræðinga í hjúkrun hjartasjúklinga og einstaklinga með sykursýki vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar og hækkandi algengi þessara sjúkdóma. Hjúkrunarfræðingar eru í lykilstöðu til að efla sjálfsumönnun fólks og rannsóknir benda til þess að sérhæfing innan hjúkrunar geti bætt útkomu sjúklinga, aukið öryggi þeirra og dregið úr endurinnlögnum.
Klínísk þjálfun verður meiri og sérhæfðari
Markmið námsins er að stúdentar öðlist sérfræðiþekkingu í annaðhvort hjúkrun sjúklinga með hjartasjúkdóma eða sykursýki. Áhersla er lögð á sjálfstæði hjúkrunarfræðinga, að efla og dýpka þekkingu, auka klíníska færni ásamt því að styrkja fagmennsku og rannsóknarfærni. Þá er horft til þess að efla hæfni í að leiða meðferð í nýjum þjónustuformum og þverfaglegum teymum sem og notkun fjarheilbrigðisþjónustu.
Um er að ræða lotubundið sveigjanlegt nám sem veitir hjúkrunarfræðingum á öllu landinu tækifæri til að sækja það og getur þannig stuðlað að fjölgun sérfræðinga í hjúkrun um allt land. Áhersla verður á herminám og klínísk þjálfun verður meiri og sérhæfðari en áður hefur staðið til boða í meistaranámi fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa á þessum sérsviðum.
Samstarf í uppbyggingu námsleiðanna
Sérfræðingar frá HA, Háskóla Íslands, Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa unnið að undirbúningi námsins í nokkurn tíma. Mikill metnaður er lagður í uppbyggingu námslínanna, sem byggja á hæfniviðmiðum Evrópska hjartahjúkrunarfélagsins og viðmiðum um menntun heilbrigðisstétta frá Alþjóðasykursýkissambandinu.
Námið er 120 ECTS einingar og lýkur því með 30 eininga meistaraverkefni. Inntökuskilyrði felast í viðurkenndu hjúkrunarnámi sem er lokið með meðaleinkunn 7 eða hærra. Pláss er fyrir 8 stúdenta á hvorri línu fyrir sig og ganga þeir umsækjendur fyrir sem hafa nú þegar lokið viðbótardiplóma- eða meistaraprófi og/eða hafa tveggja ára starfsreynslu sem hjúkrunarfræðingar. Tekið er inn í námið annað hvert ár.
Árún K. Sigurðardóttir og Margrét Hrönn Svavarsdóttir prófessorar við hjúkrunarfræðideild, munu leiða þessa nýju námslínu. Báðar eru þær doktorsmenntaðir hjúkrunarfræðingar, Árún á sviði sykursýki og Margrét Hrönn innan hjartahjúkrunar og sjúklingafræðslu.
Hér er hægt að sjá frekari upplýsingar um námið, inntökuskilyrði og umsóknarferli. Einnig verður haldinn kynningarfundur á stað og í streymi, á námsleiðunum þann 17. mars, klukkan 14:00 þar sem öll áhugasöm eru velkomin. Frekari upplýsingar um kynningarfundinn má finna hér.