„Stolt okkar bæjarfélags hér eftir sem hingað til“
Stofnunfundur hollvinasamtaka Húsavíkurkirkju var haldinn að lokinni messu í Húsavíkurkirkju á sunnudagskvöld sl.
Um 50 manns voru saman komnir í messuna og urðu flestir eftir til að taka þátt í fundinum. Hinum nýju samtökum er ætlað að stuðla að uppbyggingu á Húsavíkurkirkju, eigna hennar og umhverfi. Eins og Vikublaðið hefur áður greint frá hafa komið í ljós talsverðar fúaskemmdir á ytra byrði kirkjunnar, krossum og skrautlistum. Þá er þörf á miklu viðhaldi á Bjarnahúsi, safnaðarheimili Húsavíkursóknar.
Helga Kristinsdóttir, formaður sóknarnefndar tók til máls og sagði hollvinasamtökin vera frjáls félagasamtök, sem stofnað er til af fúsum og frjálsum vilja með einkaréttarlegum löggerningi í því skyni að vinna að ófjárhagslegum tilgangi. „Það er ekki hugmyndin að hollvina samtökin safni fjármunum á eigin reikning, heldur tali fyrir fjárframlögum sem renni til Húsavíkurkirkju og inn á reikning kirkjunnar. Það er ekki um að ræða að stofna sérstakan sjóð og ekki sérstaka sjálfseignarstofnun. Markmiðið er að hafa umgjörðina einfalda,“ sagði hún.
Auk endurbóta á Húsavíkurkirkju kom fram á fundinum að Bjarnahús þarfnist verulegra endurbóta á ytra byrði hússins, aðgengi og tenging ramps á milli safnaðarheimilis og kirkju og að hugmyndin sé að skapa fallega opna mynd af sameiginlegri lóð eignanna.
Þá sagði Helga að söfnuðurinn gerði sér fulla grein fyrir því að framkvæmdir sem fyrirhugaðar væru yrðu ekki kláraðar á einu sumri.
„Við eigum von á sérfræðingum að sunnan um leið og snjóa leysir og jörð þornar. Pétur Ármannsson frá Minjastofnun, sérfræðingur í verndun gamalla friðaðra húsa og Arnór Skúlason frá fasteignasviði kirkjunnar. Úttekt fer fram ásamt sérfræðingum á heimavelli, úr verður kostnaðaráætlun og framkvæmdaáætlun uppbyggingarverkefna næstu ára,“ útskýrði Helga og bætti við að í orgelsjóði séu um 10 milljónir. „Það er knýjandi að fá nýtt orgel í kirkjuna en pípuorgelið var smíðað hjá Starup í Danmörku 1966 og sett á vesturloftið og þar hefur það setið. Reglulega hefur Björgvin orgelsmiður komið og hreinsað orgelið sem því miður hefur dugað skammt. Marga hljóma vantar í orgelið og þekkja þeir það hvað best sem á orgelið spila og söngfólkið sem skynjar hljóma sem betur mega gefa,“ sagði hún en reikna má með að 30-40 milljónir króna þurfi til fjármögnunar á nýju orgeli.
Að lokum sagði Helga að hún gengi með þá von í brjósti að vel takist upp með stofnun hollvinasamtakanna. „Og okkur lánist á næstu árum að koma uppbyggingu allra þessara stoða í glimrandi stand og starfið megi blómstra sem aldrei fyrr. Það er svo mikilvægt fyrir kirkjuna að hafa velunnara. Við þekkjum vel að velunnarar eru þeir sem þykir vænt um, gefa og vernda. Þannig erum við. Það er ómetanlegt að hafa gott fólk sem kemur að og vinnur að kirkjunnar málum og tel ég, að við í Húsavíkursókn séum nokkuð vel sett. Verið þó ávallt tilbúin kallinu – það er gott og gefandi að starfa með góðu fólki í kirkjulegu starfi. Megi kirkjan okkar, safnaðarheimilið og umhverfi þessara sögufrægu systurhúsa vera stolt okkar bæjarfélags hér eftir sem hingað til.“
Í stjórn hollvinasamtakanna voru kjörin þau Sólveig Mikaelsdóttir, Heiðar Hrafn Halldórsson, Jóna Matthíasdóttir og til vara; Guðmundur K. Bjarnason og Dóra Ármannsdóttir.
Heiðar Hrafn sagði í samtali við Vikublaðið að stemningin á fundinum hafi verið mjög góð og greinilega mikill samhugur í samfélaginu fyrir verkefninu. Þann 18. febrúar var söfnunarreikningi hleypt af stokkunum og sagði Heiðar Hrafn að nú þegar hafi viðbrögð verið vonum framar. „Við settum inn tilkynningu á Húsavíkursíðuna á Facebook og gáfum upp reikningsnúmer fyrir söfnunina og það er búið að malla inn í söfnunina, mun meira en við gerðum ráð fyrir miðað við eina tilkynningu á Facebook,“ segir Heiðar Hrafn en þegar stofnfundurinn fór fram hafði þegar safnast vel á aðra millljón króna.
Helga Kristinsdóttir sagði jafnframt í samtali við Vikublaðið að hún væri hrærð yfir viðbrögðunum. „Ég leyfi mér að vera bjartsýn á að innan þriggja ára verðum við með falleg systurhús, kirkjunnar og safnaðarheimilisins hér í hjarta Húsavíkur.“