Stjórnsýslubreytingar taka gildi um áramót

Ráðhúsið á Akureyri. Mynd/akureyri.is
Ráðhúsið á Akureyri. Mynd/akureyri.is

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum á þriðjudaginn stjórnsýslubreytingar sem áður voru til umfjöllunar hjá bæjarstjórn og samþykktar þann 15. júní sl. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Að þessu sinni var lögð fram ítarleg greinargerð um breytingarnar framundan, sem eru þær helstar að sviðum fækkar um eitt þegar samfélagssvið verður lagt niður. Verkefni þess færast annars vegar á fræðslu- og lýðheilsusvið og hins vegar á þjónustu- og skipulagssvið. Hið síðarnefnda er nýtt stoðsvið sem annast verkefni skipulags- og byggingarmála, atvinnu-, markaðs- og menningarmála, og þjónustu og þróunar. Með þjónustu og þróun er m.a. átt við aukna áherslu á stafræna þjónustu, sem og þjónustuver, skjalasafn, rafræna stjórnsýslu og ýmis önnur þjónustu- og nýsköpunarverkefni sem ganga þvert á svið sveitarfélagsins. Þessi verkefni voru áður á stjórnsýslusviði sem verður nú mannauðssvið og munu verkefni þess snúa að launa- og mannauðsmálum.

Hlíðarfjall flyst undir umhverfis- og mannvirkjasvið en rekstur þess verður á forræði bæjarráðs. Breytingar á öðrum sviðum verða minniháttar eða engar, t.a.m. á velferðarsviði og fjársýslusviði.

Frístundaráð verður lagt niður í núverandi mynd, sem og stjórn Akureyrarstofu. Málefni stjórnar Akureyrarstofu færast til bæjarráðs og til verður fræðslu- og lýðheilsuráð. Bæjarstjórn samþykkti á fundinum skipan í þá nefnd.

Stjórnsýslubreytingarnar taka mið af samstarfssáttmála bæjarstjórnar frá 22. september 2020 þar sem kemur fram að einfalda skuli stjórnsýsluna og sameina svið. Með þeim hætti, ásamt innleiðingu stafrænna lausna, er ætlunin að ná fram hagræðingu og bæta þjónustuna með notendamiðaðri nálgun.

Nýjast