13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Stjórnsýslubreytingar á Akureyri
Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í vikunni tillögu að stjórnsýslubreytingum sem taka gildi um næstu áramót. Á vef bæjarins segir að breytingarnar séu hluti af áherslum í samstarfssáttmála bæjarstjórnar þar sem m.a. kemur fram að stjórnsýsla sveitarfélagsins verði einfölduð og svið sameinuð.
Breytingarnar fela í sér að sviðum verður fækkað um eitt og verða frá og með 1. janúar 2022 þessi:
- Fjársýslusvið
- Fræðslu- og lýðheilsusvið
- Mannauðssvið
- Umhverfis- og mannvirkjasvið
- Velferðarsvið
- Þjónustu- og skipulagssvið
Samfélagssvið verður lagt niður og munu verkefni þess deilast niður á fræðslusvið, sem þar eftir heitir fræðslu- og lýðheilsusvið, velferðarsvið og nýtt þjónustu- og skipulagssvið. Stjórnsýslusvið verður lagt niður og skiptast verkefni þess niður á mannauðssvið og þjónustu- og skipulagssvið. Skipulagssvið verður lagt niður sem sjálfstætt svið og verður hluti af nýju þjónustu- og skipulagssviði. Starf sviðsstjóra á þessu nýja sviði verður auglýst laust til umsóknar.
Akureyrarstofa lögð niður
Á þjónustu- og skipulagssviði verða ákveðnir þættir innri og ytri þjónustu við íbúa færðir saman á eitt svið með áherslu á aukna stafræna innleiðingu og þjónustu. Staðsetning skipulagsmála á þessu nýja sviði byggir á þeirri hugmynd að skipulagsmál séu í eðli sínu fyrst og fremst þjónusta við bæjarbúa. Akureyrarstofa í þeirri mynd sem hún er í dag verður lögð niður en verkefni hennar færast til hins nýja þjónustu- og skipulagssviðs. Sameining upplýsingagjafar, atvinnumála og skipulags undir eitt svið gefur einstakt tækifæri til þess að horfa á skipulagsmálin til framtíðar, uppbyggingu og framþróun Akureyrar.
Samhliða stjórnsýslubreytingunum verður kjörnum ráðum og nefndum sveitarfélagsins breytt. Frístundaráð og stjórn Akureyrarstofu verða lögð niður. Málefni frístundaráðs færast til fræðslu- og lýðheilsuráðs en málefni stjórnar Akureyrarstofu til bæjarráðs.
Lækka þarf launakostnað
Í samstarfssáttmála bæjarstjórnar kemur fram að stefnt verði að sjálfbærum rekstri með ýmsum leiðum og eru stjórnsýslubreytingarnar hluti af þeirri vegferð. Markmiði um lækkun kostnaðar verður m.a. náð með því að einblína á lögbundin verkefni og leggja enn frekari áherslu á innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu. Einnig liggur fyrir að lækka þarf launakostnað innan sveitarfélagsins.
Bæjarfulltrúarnir Halla Björk Reynisdóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Hlynur Jóhannsson unnu að tillögunum í samvinnu við fulltrúa ráðgjafafyrirtækisins Strategíu ásamt bæjarstjóra og aðstoðarmanni bæjarstjóra en nýtt skipurit byggir m.a. á samtölum ráðgjafanna við sviðsstjóra og forstöðumenn.