Steve Hackett í Hofi
Á morgun, sunnudag, fer fram sannkallaður heimsviðburður í Hofi þegar Steve Hackett úr hljómsveitinni Genesis stígur þar á svið. Tónleikarnir eru samstarf Todmobile, Steve Hackett, Sinfóníuhljómsveitar Noðurlands og Kammerkórs Norðurlands. Genesis er án efa ein áhrifamesta og vinsælasta rokksveit síðustu aldar og hafa plötur þeirra selst i meira en 130 milljónum eintaka.
Hljómsveitin var stofnuð árið 1967 af Peter Gabriel, Tony Banks og Mike Rutherford en þeir Phil Collins og Steve Hackett gengu til liðs við sveitina árið 1970. Flutt verða lög frá gullaldartíma Genesis á áttunda áratugnum af plötunum Nursery Cryme, Foxtrot, Selling England By The Pound, The Lamb Lies Down On Broadway og A Trick Of The Tail. Um er að ræða gullmola eins og Firth of Fifth, Dance On A Volcano, Supper's Ready, The Lamb Lies Down On Broadway og Dancing With The Moonlit Knight. Pöddulagið, Brúðkaupslagið, Stelpurokk, Spiladósalagið o.fl verða á sínum stað og mun Hackett frumflytja nýtt lag með Todmobile sem hann samdi með sveitinni.
Steve Hackett hefur haldið merkjum Genesis á lofti með Genesis Revisited sem hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár. Eddie Van Halen, Alex Lifeson (Rush) og Brian May (Queen) hafa allir sagt Steve Hackett hafa haft mikil áhrif á sig sem gítarleikara. Steve Hackett var vígður inn í Rock'n'Roll Hall Of Fame árið 2010 ásamt félögum sínum í Genesis.
Enn eru örfáir miðar eftir á þennan stórviðburð í Hofi og eru menn hvattir til að hafa hraðar hendur vilji þeir tryggja sér miða á þessa miklu tónlistarveislu. Todmobile og Steve Hackett munu árita eftir tónleikana og eru tónleikagestir því beðnir um að koma með Genesis plötur frá tímabili Hackett í Genesis (Nursery Cryme, Foxtrot, Selling England By The Pound, Lamb Lies Down On Broadway, Wind & Wuthering, A Trick Of The Tail, Seconds Out) og fá áritun hjá meistaranum að loknum tónleikum. Todmobile plötur að sjálfsögðu lika velkomnar.