Stellurnar
Í haust verða 50 ár liðin frá því að Útgerðarfélag Akureyringa festi kaup á systurskipum frá Færeyjum Stellu Kristinu og Stellu Karínu en Stellurnar eins og þær voru kallaðar reyndust mikil happaskip og í augum þeirra sem þannig augu hafa einhver fallegustu fiskiskip sem sést hafa við Íslandsstrendur. Sigfús Ólafur Helgason hugmyndasmiður á Akureyri fékk þá flugu í höfuðið á dögunum að kanna með smíði á líkani af þeim ,,systrum". Sigfús sem lætur sér yfirleitt ekki nægja að fá hugmynd heldur kemur hann henni á koppinn fór í málið.
Vefnum langaði til þess að fræðast aðeins um verkefnið Stellurnar.
Hvernig kom þetta til? ,,Það gerðist eiginlega af tvennum toga annars vegar hef ég alltaf haft sterkar taugar til þessara skipa enda var ég á þeim báðum en aðallega fékk ég þessa hugmynd þegar ég sá meistaraverk Elvars Þórs Antonssonar líkansmið á Dalvík. Þá sagði ég við sjálfan mig við verðum að láta smíða Stellu.“
Hvernig hafa viðbrögð verið? ,,Viðbrögðin hafa verið það góð við þessari hugmynd sem kviknaði endanlega þegar ég sá að búið er að keyra gamla Svalbak upp í fjöru í Indlandi til niðurrifs. Þetta hefur verið lygasögu líkast síðan ég ákvað að henda þessu í loftið og nú er það endanlega ákveðið við byggjum Stellu. Það eru komnir rétt tæplega 80 manns í hópinn. Vá vá!“
Líkanið klárt 1 nóvember nk.
,,Það vil svo skemmtilega til að nú 1 nóvember nk. verða 50 ár síðan þessi glæsifley sigldu fyrst inn Eyjafjörð og auðvitað ætlum við að halda upp á afmælið og afhjúpa nýja Stellu með nöfnum beggja skipanna á sitt hvorum kinnungnum og það verður veisla.“
Hvernig gengur fólk til liðs við ykkur? ,,Það geta allir gerst aðilar að verkefninu Facebook síðan Stellurnar er opin og strax eftir helgi verðum við komnir með bankareikning sem hægt verður að leggja inn á og taka þar með þátt í þessu Stelluverkefni okkar. Með því erum við að heiðra og þakka þessum glæsilegustu skuttogurum sem við Íslendingar höfum átt fyrir farsæl ár og með því að láta gera líkan sem ég veit að verður stórglæsilegt munum við um ókomin ár minnast þeirra. Margar myndir frá togaraárunum á Svalbak og Sléttbak eru byrjaðar að berast inn á síðuna sem á að vera lifandi allar götur á meðan á verkefninu stendur.“