Stefnt að framkvæmdum næsta sumar
„Viðbrögðin hafa verið mikil og í báðar áttir eins og gengur. Á kynningarfundinum sjálfum voru þó nokkur viðbrögð og margar ábendingar og spurningar sem komu. Einnig hafa sprottið upp miklar umræður á samfélagsmiðlum undanfarna daga. Við fögnum áhuganum og allri umræðu og ábendingum um uppbyggingu miðbæjarins,“ segir Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar og formaður Miðbæjarsamtakanna, í samtali við Vikublaðið.
Eins og greint var frá í síðustu viku hefur Akureyrarbær kynnt tillögur að breytingum á miðbæjarskipulagi. Tillögurnar byggja á niðurstöðum þverpólitísks stýrihóps með fulltrúum allra flokka í bæjarstjórn. Skipulagsráð samþykkti í fyrra að gera breytingar á deiliskipulaginu sem tók gildi 2014.
Nýta opið landrými með nýjum húsaröðum
Svæðið sem breytingarnar ná til afmarkast við Glerárgötu, Kaupvangsstræti, Skipagötu, Hofsbót og Strandgötu. Helstu leiðarljós núverandi skipulags eru óbreytt. Markmiðið er að nýta betur opið landrými á milli Skipagötu og Glerárgötu með nýjum húsaröðum, stækka þannig miðbæinn og bæta tengingu við höfnina og Hof með rúmgóðum austur-vestur gönguásum. Samkvæmt þeim breytingartillögum sem nú liggja fyrir verður Glerárgata áfram 2+2 vegur í núverandi legu, en gert er ráð fyrir þrengingu á einum stað með veglegri gönguþverun. Þar sem ekki er gert ráð fyrir færslu Glerárgötu minnka lóðir og byggingarreitir við Skipagötu og Hofsbót.
Einstefna á Skipagötu
Lagt er til að hluti Skipagötu verði einstefna til suðurs og að sama gildi um Hofsbót frá Skipagötu að Strandgötu. Þá er gert ráð fyrir nýjum og afmörkuðum hjólastíg eftir Skipagötu sem og reiðhjólastæðum og -skýlum fyrir almenning í miðbænum, auk þess sem kvöð er sett um reiðhjólageymslur í öllum nýjum byggingum innan svæðisins. Loks er gerð krafa um að á jarðhæð nýrra bygginga sem snúa að Skipagötu, Hofsbót og austur-vestur gönguásum verði lifandi starfsemi, svo sem verslanir, veitingastaðir, þjónusta og menningarstarfsemi sem stuðli að fjölbreyttu miðbæjarlífi.
Þórhallur Jónsson
Bílastæðamálin brenna á fólki
Þórallur segir ýmsar áhyggjur hafa kviknað meðal bæjarbúa eftir kynninguna og nefnir sérstaklega bílastæðamálin í miðbænum. Deiliskipulagsbreytingin gerir ráð fyrir að núverandi bílastæði á svæði milli Skipagötu og Glerárgötu verði aflögð vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar. „Þetta eru allt hlutir sem við höfum íhugað vandlega og leitað ráða með. Og það má geta þess að þetta eru dýrustu lóðirnar í bænum og þær undir bílaplan eins og er,“ segir Þórhallur.
Segir í greinargerð bæjarins að heildarfjöldi bílastæða í miðbænum mun þó ekki minnka þar sem skipulagið gerir ráð fyrir fjölgun stæða á öðrum svæðum, t.d. við Hof og Hólabraut neðan við Brekkugötu. Þá segir ennfremur að í tengslum við skipulagsvinnuna var farið í greiningu á fjölda og nýtingu bílastæða á miðbæjarsvæðinu og kom þá í ljós að á mörgum svæðum rétt við miðbæinn eru fjölmörg illa nýtt stæði og að yfirleitt eru á bilinu 540 – 900 bílastæði laus á hverjum tíma. Má þar t.d. nefna bílastæði við Túngötu (Landsbankann), Austurbrú, neðan við Samkomuhúsið, við Hof og Strandgötu. Er gert ráð fyrir að þessi svæði geti tekið á móti aukinni nýtingu þegar uppbygging við Skipagötu og Hofsbót hefst.
Tölvulíkan af breyttum miðbæ
Stórfyrirtækjum með milljarða hugmyndir vísað frá
Þórhallur segir brýnt að hefja uppbyggingu á miðbænum sem fyrst og bendir á að hingað hafi komið nokkur stórfyrirtæki undanfarin ár sem hafi óskað eftir að fá að byggja en þurft að vísa þeim frá þar sem ekki var til samþykkt skipulag fyrir miðbæinn. „Það er verulega slæmt því sum af þessum fyrirtækjum sem hafa horft hingað eru með það á sinni stefnuskrá að fjárfesta fyrir utan höfuðborgarsvæðið og þetta eru fyrirtæki sem hafa komið hingað með milljarða hugmyndir. Við höfum hins vegar ekki geta tekið á móti þeim þar sem ekki er til samþykkt skipulag. Við höfum einfaldlega ekki efni á að vísa slíku á bug og því brýnt að fara koma á samþykktu skipulagi til að hægt sé að hefja uppbyggingu í miðbænum.“
Uppbygging hefjist næsta sumar
Þórhallur segir að horft sé til þess að hefja uppbyggingu í norðri; á BSO-reitnum og Hofsbótar-reitnum. Spurður hvenær hægt sé að hefja framkvæmdir svarar Þórhallur: „Við erum hugsanlega að horfa til þess að hægt verði að byrja fyrstu framkvæmdir seinni part næsta sumars. Ég bind miklar vonir við að það gangi eftir.“