Stærsti vatnstankur Norðurorku þrifinn

Það verður því ekki vatnslaust á Akureyri þrátt fyrir að tankurinn sé tæmdur í ákveðinn tíma heldur …
Það verður því ekki vatnslaust á Akureyri þrátt fyrir að tankurinn sé tæmdur í ákveðinn tíma heldur er dæling frá Vöglum í Hörgárdal aukin á meðan. Mynd á vef Norðurorku

Eitt af verkefnum Norðurorku er að tryggja nægilegt magn af hreinu og góðu neysluvatni til einstaklinga og fyrirtækja á veitusvæðinu. Stærsti hluti neysluvatns bæjarbúa á Akureyri kemur úr Hlíðarfjalli, úr Sellandslindum og Hesjuvallalindum sem staðsettar eru sínhvoru megin við skíðasvæðið. Vatnið er leitt úr fjallinu og niður í tanka við Rangárvelli. Þar eru tankarnir þrír og allir eru þeir neðanjarðar. Stærsti tankurinn er 4.000 m3 en hinir tveir  500 m3 hvor. 

Kalda vatnið er skilgreint sem matvæli í reglugerð og því eru gerðar ákveðnar kröfur um tíðni og verklag í sambandi við þrif á tönkunum sem er einmitt eitt af fjölmörgum viðhaldsverkefnum þegar kemur að  vatnsveitunni. Tíðni þrifa á vatnstönkum Norðurorku fer m.a. eftir stærð tanka en tankarnir á Rangárvöllum eru þrifnir annað hvert ár. Stóri tankurinn á Rangárvöllum þrifinn í gær.

Þrifin taka 4 til 5 tíma

Starfsfólk sem fer ofan í tankinn er í göllum og stígvélum sem einungis eru notuð í þessum tilgangi og er búnaðurinn þrifinn eftir kúnstarinnar reglum. Auk þess sem gríma er notuð ofan í tankinum. Norðurorka hefur þessu til viðbótar sett ákveðnar reglur í kringum þrifin og þá ekki síður með öryggi starfsfólks í huga. Á meðan fólk er ofan í tankinum er gálgi staðsettur fyrir ofan mannop og þar stendur alltaf einn starfsmaður vaktina. Starfsfólk sem fer ofan í tankinn er klætt í öryggisbelti sem hægt er að krækja í og hífa upp, ef starfsmaður getur t.d. af einhverjum ástæðum ekki komið sér upp sjálfur. Þrifin taka að jafnaði um 4-5 klst.

Auk þess að fá kalda vatnið úr Hlíðarfjalli þá fá Akureyringar einnig vatn frá Vöglum í Hörgárdal þaðan sem því er dælt. Það verður því ekki vatnslaust á Akureyri þrátt fyrir að tankurinn sé tæmdur í ákveðinn tíma heldur er dæling frá Vöglum aukin á meðan.

Nýjast